Flóttafjölskyldurnar frá Kólumbíu aðlagast nýjum heimkynnum
Flóttamannaverkefnið er samstarfsverkefni stjórnvalda, Rauða krossins, Reykjavíkurborgar og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Reykjavíkurdeild Rauða krossins hefur umsjá með framkvæmd móttkunnar fyrir hönd Rauða krossins og höfðu starfsfólk og sjálfboðaliðar á vegum deildarinnar meðal annars standsett íbúðir á vegum borgarinnar sem biðu flóttafólksins. Rútufyrirtækið Guðmundur Jónasson ehf. sá um að aka flóttafólkinu til hinna nýju heimkynna eins og það hefur alltaf gert síðan 1956 þegar fyrstu flóttamennirnir komu til Íslands.
Flóttamenn koma til landsins í dag
Flóttafólkið kemur hingað til lands frá Ekvador, en fólkið hafði flúið ofbeldi, stríðsátök og ofsóknir í heimalandi sínu Kólumbíu. Vegna sérstakra aðstæðna fólksins í Ekvador fór Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fram á það við íslensk stjórnvöld að fólkinu yrði veitt hæli á Íslandi.
Flóttafólkið mun setjast að í Reykjavík og munu Reykjavíkurborg og Rauði krossinn sjá um móttöku þess. Það mun taka þátt í sérstöku tólf mánaða aðlögunarverkefni sem felur meðal annars í sér að Reykjavíkurborg útvegar því húsnæði, félagslega ráðgjöf, og íslenskunám og samfélagsfræðslu. Börn og ungmenni munu sækja leik-, grunn- og framhaldsskóla í borginni. Börnin fá sérstakan stuðning í skólum og móðurmálskennslu.