22. jún. 2009 : Málefni flóttafólks vöktu mikla athygli á Laugaveginum

Fjölmargir kynntu sér málefni og menningu flóttafólks og hælisleitenda á alþjóðadegi flóttamanna síðast liðinn laugardag. Rauði kross Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna stóðu að opnu húsi, í listahúsinu StartArt, á Laugavegi, í samstarfi við hælisleitendur og flóttafólk, þar sem athygli var vakin á stöðu flóttafólks og allra þeirra sem neyðast til að leggja á flótta. Jafnframt var bent á þátt flóttafólks við að byggja hér betra samfélag og auðga íslenska menningu og mannlíf. Boðið var upp á ýmsa skemmtun – tónlist, dans, dýrindis kaffi og léttar veitingar.

19. jún. 2009 : Opið hús í tilefni af alþjóðadegi flóttamanna 20. júní í StartArt á Laugaveginum

Í tilefni af alþjóðadegi flóttamanna standa Rauði kross Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, í samstarfi við hælisleitendur og flóttafólk og Kaffitár, að opnu húsi, í listahúsinu StartArt, á Laugavegi 12b, frá klukkan 13:00-15:00. Málefni og menning flóttafólks verða kynnt en boðið verður upp á ýmsa skemmtun - tónlist, dans, dýrindis kaffi og léttar veitingar. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.

11. jún. 2009 : Námskeið um málsmeðferð hælisleitenda

Fjölmennt var á námskeiði um málsmeðferð hælisleitenda sem Rauði kross Íslands stóð fyrir í gær í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Fulltrúar frá Flóttamannastofnun SÞ fóru yfir ýmis atriði sem skipta grundvallarmáli þegar ákvarðað er um stöðu einstaklings sem sækir um hæli.

„Meginviðfangsefnið var aðferðarfræði við ákvörðun á stöðu flóttamanns, t.d. hvernig eigi að meta trúverðugleika hælisumsækjanda, viðtalstækni, skilyrði flóttamannahugtaksins og fleira," segir Atli Viðar Thorstensen, verkefnisstjóri hjá Rauða krossi Íslands.

11. jún. 2009 : Rauði krossinn andvígur því að senda hælisleitendur til Grikklands

Rauði kross Íslands harmar þá niðurstöðu sem fram kemur í skýrslu dómsmálaráðuneytisins að hælisleitendur verði aftur sendir til Grikklands á grundvelli Dyflinnar reglugerðarinnar. Rauði krossinn hefur ítrekað beint þeim tilmælum til dómsmálaráðherra að hælisleitendur verði ekki sendir til Grikklands að svo stöddu og byggt þau á skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá apríl 2008.

Dómsmálaráðuneytið hefur nú til meðferðar mál sex einstaklinga sem sótt hafa um hæli á Íslandi eftir að hafa dvalist fyrst í Grikklandi. Lengst hafa þeir dvalist á Íslandi í rúmt ár en skemmst í rúma sjö mánuði. Á þeim tíma hafa þeir myndað góð og sterk tengsl við landið og við aðra borgara hér. Allir hafa þeir sótt eftir vernd hérlendis þar sem þeir telja sér ekki óhætt verði þeir sendir aftur til Grikklands á grundvelli Dyflinnar reglugerðarinnar.

10. jún. 2009 : Einn af sex hundruð?

Undanfarið hefur borið á því sjónarmiði að íslensk stjórnvöld snúi öllum hælisleitendum úr landi, ýmist til þeirra landa sem þeir flýja, ellegar annarra Evrópulanda, þar sem þeir eigi illa vist. Greinin birtist á Visir.is þann 30. maí sl.

7. jún. 2009 : Strand í sandi

Hvar finnurðu steikjandi sumarhita, reglubundna sandstorma og eyðimörk með snákum og sporðdrekum? Bættu svo við þunnum tjöldum og ískulda á vetrum – þú gætir verið í Al Waleed flóttamannabúðunum í Írak. Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

2. jún. 2009 : Fólkið sem flýr heimkynni sín

Samanburður á afgreiðslu Íslendinga og Norðmanna á hælisumsóknum leiðir í ljós að frændur okkar veita mun fleiri stöðu flóttamanna. Zoë Robert heimsótti hælisleitendamiðstöðina í Þrándheimi. Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.