1. sep. 2011 : Vestmannaeyjadeild bauð hælisleitendum í bátsferð um Eyjar

Sjálfboðaliðar Rauða krossins fóru á dögunum í vel heppnaða ferð til Vestmannaeyja með hælisleitendum. Lagt var af stað úr Reykjanesbæ snemma morguns í blíðskaparveðri áleiðis í Landeyjarhöfn þar sem hópurinn tók Herjólf til Eyja.

Vestmannaeyjadeild Rauða krossins sýndi mikla gestrisni þegar tekið var á móti hópnum og sá til þess að menn fengju að njóta þess besta sem Vestmannaeyjar hafa uppá að bjóða. Að sjálfsögðu var ekið um Heimaey auk þess sem boðið var uppá bátsferð og eldfjallasýningu.

31. ágú. 2011 : Tólf milljónir ríkisfangslausra í heiminum

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur að undanförnu vakið athygli almennings og ríkisstjórna að enn eru um 12 milljónir karla, kvenna og barna ríkisfangslaus í heiminum. Það eru fleiri en búa samanlagt í Danmörku, Noregi, Íslandi, Færeyjum og Grænlandi.

Þar sem ríkisfangslausir einstaklingar eru tæknilega ekki ríkisborgarar neins ríkis er þeim oft neitað um grundvallarmannréttindi og um aðgengi að vinnumarkaði, húsnæði, menntun og heilbrigðisþjónustu. Sumir lenda í því að vera handteknir og dæmdir til fangelsisvistar því þeir geta ekki sýnt fram á hverjir þeir eru því þeir eiga hvorki vegabréf né önnur skilríki.

24. ágú. 2011 : Alþjóðleg vernd hælisleitenda frá Afganistan, Írak og Sómalíu í sex Evrópuríkjum

Nýlega gaf Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna út skýrsluna „Safe at last?“ sem fjallar um lagaumhverfi og framkvæmd í sex Evrópusambandsríkjum og þá vernd sem hælisleitendum sem flýja stríðsátök og handahófskennd ofbeldi er veitt í þessum sömu ríkjum.

10. ágú. 2011 : Hælisleitendur á Íslandi janúar til júní 2011

Á fyrstu sex mánuðum ársins 2011 sóttu alls 32 einstaklingar frá 18 ríkjum um hæli á Íslandi sem flóttamenn. Af þeim drógu þrír einstaklingar umsókn sína til baka áður en ákvörðun var tekin. Á sama tíma veitti Útlendingastofnun átta umsækjendum réttarstöðu flóttamanns, þar af einum á grundvelli viðbótarverndar og fjórum á grundvelli 3. mgr. 46. gr. laga um útlending sem aðstandandi flóttamanns. Umsóknir 26 einstaklinga voru enn til meðferðar hjá stofnuninni í lok júní 2011.

Útlendingastofnun tók alls 18 ákvarðanir varðandi umsóknir um hæli á fyrstu sex mánuðum ársins og var sem fyrr segir átta einstaklingum veitt réttarstaða flóttamanns. Sex einstaklingum var synjað um hæli og dvalarleyfi, fjórir einstaklingar voru endursendur til annars Evrópulands á grundvelli Dublinar samstarfsins og sem fyrr segir drógu þrír hælisumsókn til baka. Alls lauk því 21 málum hjá stofnuninni á fyrri hluta árs 2011.

5. júl. 2011 : Fótboltahjarta mitt spilar með Írak

Ein skærasta vonarstjarna Knattspyrnufélags Akraness er fjórtán ára flóttamaður frá Írak. Greinin birtist í Fréttablaðinu 2. júlí 2011.

20. jún. 2011 : Hælisleitendum boðið í skemmtiferð í tengslum við Alþjóðadag flóttamanna

Sjálfboðaliðar Hafnarfjarðardeildar sem vinna í mánaðarlegu félagsstarfi hælisleitenda stóðu fyrir skemmtiferð undir leiðsögn í tilefni af Alþjóðadegi flóttamanna síðasta laugardag, þann 18. júní. Þátttaka var góð en að þessu sinni var farið um „heimaslóðir“ hælisleitenda, Reykjanesið, þar sem margir áhugaverðir staðir eru að sjá.

Ferðin hófst með heimsókn til tveggja listamanna sem kynntu list sína, glerblástur og kertagerð. Því var fylgt eftir með göngu meðfram höfninni í Gróf að Svartahelli þar sem skessan í hellinum býr. Skessan flutti til Reykjanesbæjar á Ljósanótt árið 2008 og hefur búið um sig í hellinum með góðu útsýni yfir Keflavíkina og Faxaflóann. Fannst hópnum þetta spaugilegt og gott myndefni. Næst var farið á Garðskaga þar sem boðið var upp á vöfflur og kaffi og notið útsýnis yfir hafið áður en Byggðasafnið var heimsótt og vitinn klifinn.

Veðrið skartaði sínu fegursta og það voru ánægðir ferðalangar sem gengu eftir ströndinni og nutu útsýnis í þeirri stórskornu náttúru sem er við Reykjanesströndina.
 

20. jún. 2011 : Alþjóðadagur flóttamanna í dag

20. júní er alþjóðadagur flóttamanna. 60 ár eru frá samþykkt flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og 55 ár síðan Ísland fullgilti hann.

16. jún. 2011 : Alþjóðadagur flótttamanna 20. júní

Þann 20. júní er alþjóðadagur flóttamanna. Ár hvert er þessi dagur notaður til að minna á stöðu flóttamanna um heim allan. Mikill fjöldi fólks sætir á degi hverjum ofsóknum, býr við stríðsástand og sætir grimmilegum mannréttindabrotum, og neyðist til flýja heimaland sitt til að bjarga lífi sínu.

Rauði kross Íslands vill nota tækifærið og vekja athygli á stöðu flóttamanna og þeirra sem leitað hafa hælis hérlendis. Rauði krossinn hefur ítrekað bent á að veita eigi hælisleitendum aðstoð lögmanns frá því að umsókn um hæli er lögð fram.

15. jún. 2011 : Borgarstjóri vill rjúfa einangrun flóttafólks

Borgarstjóri tekur undir viljayfirlýsingu Rauða krossins og fleiri samtaka. Greinin birtist í DV þann 15.06.2011.

14. jún. 2011 : Áhugaverður fyrirlestur um málefni hælisleitenda

Arndís A. K. Gunnarsdóttir lögmaður og sjálfboðaliði Rauða krossins hélt í dag áhugaverðan fyrirlestur um sérstaklega berskjaldaða hópa í hælismeðferð.

Arndís, sem starfar sem sjálfboðaliði í réttindagæslu hælisleitenda, sótti nýverið námskeið á vegum ELENA í Belgíu þar sem fjallað var um sérstaklega berskjaldaða hópa í hælismeðferð í Evrópu.

Í erindi sínu fjallaði Arndís um hvaða hópar það eru sem eru sérstaklega berskjaldaðir, hvaða vernd er fyrir hendi og hvernig við getum greint þá sem eru sérstaklega berskjaldaðir. Erindið sóttu fulltrúar ýmissa stofnana sem vinna að málefnum hælisleitenda. Arndís hafði áður flutt sama erindi fyrir sjálfboðaliða Rauða krossins sem vinna að málefnum hælisleitenda.
 

7. jún. 2011 : Harmleikurinn við Miðjarðarhafið sýnir að enn frekari þörf er á að tryggja réttindi farenda

Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans lýsir áhyggjum yfir afdrifum þeirra hundruða farenda (e. migrants) sem flúðu yfir Miðjarðarhafið í byrjun árs.

7. feb. 2011 : Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur áhyggjur af stefnu sænskra stjórnvalda að snúa hælisleitendum frá Írak til baka

Hlutfall hælisleitenda frá Írak hefur fallið úr 90% árin 2006-2007 niður í 27% á árinu 2009 í kjölfar dóms áfrýjunardómstóls í Svíþjóð árið 2007 sem úrskurðaði um að vopnuðum átökum í Írak væri lokið.

Svíþjóð brottvísar nauðugum fleiri Írökum en önnur ríki og hefur sætt harðri gagnrýni fjölmargra aðila, þar á meðal Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Margir þeirra sem hefur verið brottvísað til Íraks eru sagðir tilheyra minnihlutahópum í Írak sem eru í hættu í Írak og hefur mörgum þeirra, samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannastofnun SÞ, verið brottvísað til svæða innan Íraks þar sem mikið ofbeldi ríkir sem aftur gefur tilefni til alþjóðlegrar verndar.

4. feb. 2011 : Tíu fengu alþjóðlega vernd á síðasta ári - Afgreiðslutíminn styttist milli ára

Tíu einstaklingar fengu alþjóðlega vernd hér á landi á síðasta ári, þ.e. stöðu flóttamanns eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og/eða vegna sérstakra tengsla við landið. Alls sótti 51 einstaklingur frá 22 ríkjum um hæli hér á landi. Greinin birtist í Morgunblaðinu 03.02.2011.

20. jan. 2011 : Þriðji hver flóttamaður og hælisleitandi í Finnlandi með einkenni áfallastreitu

Samkvæmt Helsinki Deaconess stofnunni í Finnlandi sýnir þriðji hver hælisleitandi og flóttamaður sem kemur til landsins einkenni áfallastreitu eða þjáist af áfallastreituröskun. Í skýrslu stofnunarinnar fær aðeins þriðjungur þeirra viðhlítandi aðstoð. Í skýrslunni kemur einnig fram að heilbrigðiskerfi Finnlands er ófært um að koma til móts við þarfir einstaklinga sem hafa verið pyndaðir eða þeim verið nauðgað eða börn sem hafa verið látin stunda hermennsku.

Einstaklingar sem þjást af áfallastreitu eða áfallastreituröskun eiga erfitt með að sækja sér þá aðstoð sem þeir eru í þörf fyrir vegna langra biðlista og biðraða, fordóma og erfiðleika heilbrigðiskerfisins við að greina þá einstaklinga sem þjást af áfallastreitu. Börn eru að auki gjarnan treg að ræða þá erfiðu reynslu sem þau hafa gengið í gegnum.