20. jún. 2011 : Hælisleitendum boðið í skemmtiferð í tengslum við Alþjóðadag flóttamanna

Sjálfboðaliðar Hafnarfjarðardeildar sem vinna í mánaðarlegu félagsstarfi hælisleitenda stóðu fyrir skemmtiferð undir leiðsögn í tilefni af Alþjóðadegi flóttamanna síðasta laugardag, þann 18. júní. Þátttaka var góð en að þessu sinni var farið um „heimaslóðir“ hælisleitenda, Reykjanesið, þar sem margir áhugaverðir staðir eru að sjá.

Ferðin hófst með heimsókn til tveggja listamanna sem kynntu list sína, glerblástur og kertagerð. Því var fylgt eftir með göngu meðfram höfninni í Gróf að Svartahelli þar sem skessan í hellinum býr. Skessan flutti til Reykjanesbæjar á Ljósanótt árið 2008 og hefur búið um sig í hellinum með góðu útsýni yfir Keflavíkina og Faxaflóann. Fannst hópnum þetta spaugilegt og gott myndefni. Næst var farið á Garðskaga þar sem boðið var upp á vöfflur og kaffi og notið útsýnis yfir hafið áður en Byggðasafnið var heimsótt og vitinn klifinn.

Veðrið skartaði sínu fegursta og það voru ánægðir ferðalangar sem gengu eftir ströndinni og nutu útsýnis í þeirri stórskornu náttúru sem er við Reykjanesströndina.
 

20. jún. 2011 : Alþjóðadagur flóttamanna í dag

20. júní er alþjóðadagur flóttamanna. 60 ár eru frá samþykkt flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og 55 ár síðan Ísland fullgilti hann.

16. jún. 2011 : Alþjóðadagur flótttamanna 20. júní

Þann 20. júní er alþjóðadagur flóttamanna. Ár hvert er þessi dagur notaður til að minna á stöðu flóttamanna um heim allan. Mikill fjöldi fólks sætir á degi hverjum ofsóknum, býr við stríðsástand og sætir grimmilegum mannréttindabrotum, og neyðist til flýja heimaland sitt til að bjarga lífi sínu.

Rauði kross Íslands vill nota tækifærið og vekja athygli á stöðu flóttamanna og þeirra sem leitað hafa hælis hérlendis. Rauði krossinn hefur ítrekað bent á að veita eigi hælisleitendum aðstoð lögmanns frá því að umsókn um hæli er lögð fram.

15. jún. 2011 : Borgarstjóri vill rjúfa einangrun flóttafólks

Borgarstjóri tekur undir viljayfirlýsingu Rauða krossins og fleiri samtaka. Greinin birtist í DV þann 15.06.2011.

14. jún. 2011 : Áhugaverður fyrirlestur um málefni hælisleitenda

Arndís A. K. Gunnarsdóttir lögmaður og sjálfboðaliði Rauða krossins hélt í dag áhugaverðan fyrirlestur um sérstaklega berskjaldaða hópa í hælismeðferð.

Arndís, sem starfar sem sjálfboðaliði í réttindagæslu hælisleitenda, sótti nýverið námskeið á vegum ELENA í Belgíu þar sem fjallað var um sérstaklega berskjaldaða hópa í hælismeðferð í Evrópu.

Í erindi sínu fjallaði Arndís um hvaða hópar það eru sem eru sérstaklega berskjaldaðir, hvaða vernd er fyrir hendi og hvernig við getum greint þá sem eru sérstaklega berskjaldaðir. Erindið sóttu fulltrúar ýmissa stofnana sem vinna að málefnum hælisleitenda. Arndís hafði áður flutt sama erindi fyrir sjálfboðaliða Rauða krossins sem vinna að málefnum hælisleitenda.
 

7. jún. 2011 : Harmleikurinn við Miðjarðarhafið sýnir að enn frekari þörf er á að tryggja réttindi farenda

Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans lýsir áhyggjum yfir afdrifum þeirra hundruða farenda (e. migrants) sem flúðu yfir Miðjarðarhafið í byrjun árs.