Fjöldi hælisumsókna á árinu 2009 og ákvarðanir Útlendingastofnunar og dómsmálaráðuneytis á árinu 2009

12. jan. 2010

Fjöldi hælisumsókna á árinu 2009 og ákvarðanir Útlendingastofnunar og dómsmálaráðuneytis á árinu 2009. (12. janúar 2010)

Samkvæmt upplýsingum Rauða kross Íslands hafa alls 35 einstaklingar óskað eftir hæli á Íslandi frá 1. janúar til 31. desember 2009. Þar með talið eitt barn sem fæddist á Íslandi á meðan mál foreldra þess var til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Flestir umsækjenda eru frá Íran, eða alls sjö umsækjendur. Næstflestir koma frá Albaníu og Sýrlandi, þrír frá hvoru landi. Tveir hælisumsækjendur hafa komið frá eftirtöldum ríkjum: Afganistan, Erítreu, Írak, Lýðveldinu Kongó, Líbíu, Nígeríu og Sómalíu. Hér að neðan má sjá lista um fjölda hælisumsækjenda miðað við upprunaríki þeirra.

Fjöldi hælisumsækjenda á Íslandi 1. janúar til 31. desember 2009

Upprunaland Fjöldi
Íran 7
Albanía 3
Sýrland 3
Afganinstan 2
Erítrea 2
Írak 2
Kongó 2
Líbía 2
Nígería 2
Sómalía 2
Sri Lanka 1
Alsír 1
Brasilía 1
Eþíópía 1
Moldavía 1
Senegal 1
Síerra Leone 1
Tyrkland 1
Samtals 35


Á árinu hefur Útlendingastofnun afgreitt 41 umsókn um hæli og að auki drógu átta umsækjendur hælisumsókn til baka eða hurfu áður en umsókn var afgreidd. Alls hefur því málum 49 einstaklinga lokið á árinu. Útlendingastofnun viðurkenndi stöðu þriggja hælisleitenda sem flóttamanna og veitti að auki tveimur öðrum hælisumsækjendum réttarstöðu flóttamanna sem aðstandenda flóttamanns.

Alls var tíu umsækjendum veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þar af þremur einstaklingum sem höfðu dregið hælisumsókn til baka en sótt um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Átta hælisumsækjendum var synjað um hæli og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og ákvað stofnunin að átján einstaklingar skyldu endursendir til annarra Evrópuríkja sem taka þátt í Dublinar samstarfinu svokallaða.

Athygli vekur að alls var fimm einstaklingum veitt réttarstaða flóttamanns á árinu og var það Útlendingastofnun í öllum tilfellum sem veitti stöðuna. Aðeins tvisvar áður hafa hælisumsækjendur fengið stöðu flóttamanns á Íslandi. Annars vegar árið 2000 og hins vegar árið 2008 og var það Útlendingastofnun í báðum tilfellum sem veitti stöðuna. Um var að ræða einstaklinga frá Afríkuríkinu Zaír og Sri Lanka. Þeir einstaklingar sem var veitt staða flóttamanns á árinu 2009 komu frá Erítreu (2) og Íran (3). Upprunalönd þeirra hælisleitenda sem Útlendingastofnun veitti dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eru eftirtalin: Albanía (3), Kosovo (3), Afganistan (1), Kína (1), Máritanía (1) og Rússland (1). 

Af ákvörðun sem Útlendingastofnun tók á árinu 2009 og vörðuðu alls 41 einstakling fengu 15 einstaklingar vernd hérlendis. Sem fyrr segir lauk málum átta einstaklinga með því að hælisumsókn var dregin til baka eða viðkomandi hvarf úr landi.

Sé aðeins litið til ákvarðana sem varða hælisleitendur sem sóttu um á árinu 2009 kemur í ljós að alls hefur málum 26 einstaklinga verið lokið á árinu en mál níu einstaklinga er enn til meðferðar. Sjá töflu hér að neðan:

Umsækjendur alls 35
Dró til baka / hvarf 8
Synjað 2
Dublin endursending 11
Staða flóttamanns 5
Dvalarleyfi af mánnúðarástæðum 0
Fjöldi ákvarðana 25
Enn til meðferðar 30.12.2009 9


Úrskurðir dóms- og mannréttindaráðuneytisins á árinu 2009

Það sem af er ári hefur dóms- og mannréttindaráðuneytið lokið við að afgreiða 36 kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar. Að auki féll ein kæra niður. Það sem af er ári hefur ráðuneytið í þrettán kærumálum staðfest synjun Útlendingastofnunar á veitingu hælis og dvalarleyfis af mannúðarástæðum og átján ákvarðanir sem varða endursendingu til annars Evrópuríkis sem tekur þátt í Dublinar samstarfinu. Í þremur tilvikum hefur máli verið vísað aftur til Útlendingastofnunar og í tilviki tveggja hælisleitenda var mælt fyrir um veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Af heildarfjölda kærumála sem ráðuneytið úrskurðaði um á árinu 2009 var tveimur einstaklingum veitt vernd hérlendis og þremur málum vísað aftur til Útlendingastofnunar. Þar lauk tveimur þeirra með útgáfu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða en eitt mál er enn til meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Hér að neðan má sjá í töflum niðurstöðu afgreiðslu Útlendingastofnunar og dómsmálaráðuneytis á hælisumsóknum það sem af er ári 2009.

Samantekt um fjölda verndarveitinga á árinu 2009:
Alls var fimm einstaklingum veitt hæli sem flóttamenn á árinu 2009 og var það Útlendingastofnun sem úrskurðaði í öllum tilfellum. Að auki var tíu einstaklingum veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þar af þremur einstaklingum sem höfðu dregið hælisumsóknir til baka og sótt um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Alls veitti Útlendingastofnun 15 einstaklingum vernd á Íslandi á árinu 2009. Að auki úrskurðaði dóms- og mannréttindaráðuneytið að tveimur hælisleitendum skyldi veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var því alls 17 einstaklingum veitt vernd hérlendis á árinu 2009.

Tafla 1: Ákvarðanir Útlendingastofnunar, 1. janúar til 31. desember 2009.

Niðurstaða ÚTL Fjöldi
Dró til baka / Hvarf 8
Synjun á hæli og dvalarleyfi af mannúðarástæðum 5
Dublin endursending 18
Réttarstaða flóttamanns 5
Dvalarleyfi af mannúðarástæðum 10
Fjöldi ákvaðana 49


Tafla 2: Úrskurðir dóms- og mannréttindaráðuneytisins , 1. janúar til 31. desember 2009

Úrskurðir Fjöldi
Máli vísað aftur til Útlendingastofnunar 3
Kæra féll niður 1
Synjun staðfest 13
Dublin endursending staðfest 18
Réttarstaða flóttamanns 0
Dvalarleyfi af mannúðarástæðum 2
Fjöldi úrskurða 37


Tafla 3: Hælisumsóknir á Íslandi frá 1. janúar til 31. desember 2009 eftir upprunalandi, mánuðum og kyni

Upprunaland Jan Feb Mar Apr Maí Jún Júl Ágú Sep Okt Nóv Des Samtals KK KVK Börn
Afganistan           1     1       2 2    
Albanía   1 1     1             3 3    
Alsír               1         1 1    
Brasilía               1         1 1    
Lýðveldið Kongó             1     1     2 2    
Erítrea     2                   2   1 1
Eþíópía               1         1   1  
Íran         1 2   2   2     7 4 1 2
Írak           1   1         2 2    
Líbía             1        1   2 2    
Moldavía               1         1 1    
Nígería             1       1   2 1 1  
Senegal                     1   1 1    
Sierra Leone               1         1 1    
Sómalía         1             1 2 2    
Sri Lanka           1             1 1    
Sýrland               3         3 1 1 1
Tyrkland                   1     1 1    
Samtals 0 1 3 0 2 6 3 11 1 4 3 b 35 26 5 b