Ósamræmi í meðferð hælisumsókna í löndum Evrópusambandsins

7. apr. 2010

Nýleg athugun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hefur leitt í ljós að á meðal tólf ESB ríkja er ósamræmi þegar kemur að meðferð hælisumsókna. Á vettvangi ESB var samþykkt tilskipun um meðferð hælisumsókna árið 2005 sem skyldi tryggja að ákvarðanir um réttarstöðu flóttamanna yrði samræmd innan sambandsins og um leið yrðu réttindi hælisleitenda tryggð betur, s.s. með því að tryggja að persónuviðtal yrði tekið við hælisleitendur og að hælisleitendur hefðu rétt til að kæra ákvarðanir.

Á árinu 2009 voru 250.000 hælisbeiðnir skráðar í löndum ESB. Niðurstaða Flóttamannastofnunar sýnir að aðildarríki ESB beita tilskipun ESB um meðferð hælisumsókna með ólíkum hætti og í sumum tilfellum má ætla að alþjóðalög um réttindi flóttamanna hafi verið brotin, að sögn talsmanns Flóttamannastofnunar. Þannig er hælisleitendum ekki alltaf tryggt viðtal eða þeim gefin nægjanlegur tími til að undirbúa hælisbeiðnir sínar. Þá eru túlkar ekki alltaf viðstaddir eða þeir hæfir.

Í einu ríkjanna sem var til umfjöllunar kom í ljós að 171 viðtalsskýrsla við hælisleitendur var nákvæmlega eins nema að nafni hælisumsækjanda og upprunalandi hafði verið breytt. Þegar Flóttamannastofnun gerði rannsókn sína voru það þrjú ríki sem studdust við lista yfir svo kölluð „örugg upprunalönd“ þegar ákvarðarnir voru teknar en þessir listar voru mismunandi á milli landa.

„Aðeins eitt land [Gana] var á lista hjá þessum þremur ríkjum, jafnvel þótt í einu þessara ríkja væri Gana aðeins talið „öruggt fyrir karlmenn,“ sagði talsmaður Flóttamannastofnunar.

Talsmaður Flóttamannastofnunar bætti við að flýtimeðferðir hefðu dregið úr verndarákvæðum í þágu hælisleitenda sem gefur tilefni til að ætla að verndarþarfir hælisleitenda séu ekki nægjanlega skoðaðar og að þeir kunni að verða sendir aftur til landa þar sem þeim sé hætta búinn vegna ofsókna eða þeir verði fyrir alvarlegum skaða.

Flóttamannastofnun kannaði mál um eitt þúsund einstaklinga í tólf löndum sem voru Belgía, Bretland, Búlgaría, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Slóvenía, Spánn, Tékkland og Þýskaland. Flóttamannastofnun hefur á grundvelli rannsóknarinnar hvatt ESB til að bæta það sem miður var en einnig að búnar verði til leiðbeiningar og siðareglur fyrir þá starfsmenn stjórnvalda sem taka viðtöl við hælisleitendur sem og túlka.