Fjöldi hælisleitenda í iðnríkjunum árið 2009

21. apr. 2010

Tölfræði Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sýnir að fjöldi hælisleitenda í 44 iðnvæddu ríkjunum hafi verið nánast sá sami árið 2009 og hann var árið 2008. Fjöldinn á síðasta ári hafi verið 377.000. Þær hugmyndir um að það sé mikil aukning hælisleitenda í iðnríkjunum eigi því ekki við rök að styðjast sagði yfirmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres. „Hvað sem kann að vera sagt meðal einstakra stjórnmálamanna sýna tölur okkar að fjöldi hælisleitenda á milli ára er nánast sá sami,“ sagði hann ennfremur.

Tölfræði Flóttamannastofnunar leiðir þó í ljós að enn er munur á fjölda hælisumsókna á milli svæða. Á Norðurlöndum varð 13% aukning á hælisbeiðnum en alls voru lagðar fram 51.100 nýjar hælisbeiðnir á síðasta ári sem er mestur fjöldi í sex ár. Á sama tíma varð 33% fækkun hælisbeiðna í suðurhluta Evrópu. Þessa fækkun má einkum rekja til mikillar fækkunar hælisbeiðna á Ítalíu (42%), Tyrklandi (40%) og í Grikklandi (20%).

Hvað varðar upprunalönd hælisleitenda, þá voru hælisleitendur frá Afganistan fjölmennastir með 26.800 umsóknir um hæli, fjölgun upp á 45% frá árinu 2008. Alls sóttu 24.000 Írakar um hæli á sama tíma og 22.600 Sómalir.

 Á Íslandi sóttu 35 einstaklingar um hæli á Íslandi á árinu 2009 og fækkaði um helming frá árinu 2008 þegar 76 einstaklingar sóttu um hæli.