Fjöldi hælisleitenda fyrstu sex mánuði ársins 2010 og ákvarðanir stjórnvalda í hælismálum á sama tíma

3. ágú. 2010

Á fyrstu sex mánuðum ársins 2010 sóttu alls 17 einstaklingar frá tólf ríkjum um hæli á Íslandi sem flóttamenn. Af þeim dró einn einstaklingur umsókn sína til baka en Útlendingastofnun veitti einum umsækjanda réttarstöðu flóttamanns. Fimmtán umsóknir voru enn til meðferðar hjá stofnuninni í lok júní 2010.

Útlendingastofnun tók alls 14 ákvarðanir varðandi umsóknir um hæli á fyrstu sex mánuðum ársins og var fjórum einstaklingum veitt réttarstaða flóttamanns, sex var veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og/eða vegna tengsla við landið. Þremur var synjað um hæli og dvalarleyfi, einn einstaklingur var endursendur til annars Evrópulands á grundvelli Dublinar samstarfsins og sem fyrr segir dró einn hælisumsókn til baka. Alls lauk því 15 málum hjá stofnuninni á fyrri hluta árs 2010.

Á sama tímabili úrskurðaði dómsmála- og mannréttindaráðuneytið í sex kærumálum sem vörðuðu umsóknir um hæli. Tveimur málum var vísað aftur til Útlendingastofnunar til efnismeðferðar, í einu máli var synjun á hæli og dvalarleyfi staðfest og í málum þriggja einstaklinga var endursending til annars Evrópulands á grundvelli Dublinar samstarfsins staðfest, þ.m.t. kæra hælisleitanda frá Íran sem hafði verið sendur til Grikklands þvert á tilmæli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Rauða kross Íslands og fleiri aðila.

Í meðfylgjandi skjali fá finna nánari tölulegar upplýsingar varðandi fjölda hælisleitanda og fjölda ákvarðana stjórnvalda á fyrstu sex mánuðum ársins 2010.