Þriðji hver flóttamaður og hælisleitandi í Finnlandi með einkenni áfallastreitu

20. jan. 2011

Samkvæmt Helsinki Deaconess stofnunni í Finnlandi sýnir þriðji hver hælisleitandi og flóttamaður sem kemur til landsins einkenni áfallastreitu eða þjáist af áfallastreituröskun. Í skýrslu stofnunarinnar fær aðeins þriðjungur þeirra viðhlítandi aðstoð. Í skýrslunni kemur einnig fram að heilbrigðiskerfi Finnlands er ófært um að koma til móts við þarfir einstaklinga sem hafa verið pyndaðir eða þeim verið nauðgað eða börn sem hafa verið látin stunda hermennsku.

Einstaklingar sem þjást af áfallastreitu eða áfallastreituröskun eiga erfitt með að sækja sér þá aðstoð sem þeir eru í þörf fyrir vegna langra biðlista og biðraða, fordóma og erfiðleika heilbrigðiskerfisins við að greina þá einstaklinga sem þjást af áfallastreitu. Börn eru að auki gjarnan treg að ræða þá erfiðu reynslu sem þau hafa gengið í gegnum.

Jóhann Thoroddsen sálfræðingur Rauða kross Íslands segir að engar rannsóknir hafa verið gerðar á líðan hælisleitenda á Íslandi. „Það er afar brýnt að framkvæma slíkar rannsóknir til þess að þjónustuaðilar geti veitt viðeigandi þjónustu og átt auðveldara með að skipuleggja hana“, segir Jóhann. „Það hefur reyndar byggst upp nokkur þekking í Reykjanesbæ, sem hefur umsjón með umönnun hælisleitenda, og eins hjá Rauða krossinum á þörfum sem lúta að húsnæði, afþreyingu og ýmsum handföstum hlutum. Hins vegar skortir upp á þekkingu á andlegri líðan, þörfum hælisleitenda á því sviði og hvernig best sé að koma til móts við  þær þarfir.“

Jóhann telur að með vandaðri rannsókn væri mun auðveldara að gera sér grein fyrir hver staðan er í raun og veru. Í dag sé þekking á andlegri líðan hælisleitenda á Íslandi meira byggð á tilfinningu heldur en staðreyndum þótt geri megi ráð fyrir að líðan hælisleitenda og flóttamanna sé ekki ólík milli landa eins og Finnlands og Íslands. Með niðurstöðum úr rannsókn á þessu sviði ættu allir sem koma að þjónustu við þennan hóp einstaklinga auðveldara um vik að veita þjónustu við hæfi.

Á Íslandi óska á hverju ári nokkrir tugir einstaklinga eftir hæli sem flóttamenn og að auki hafa íslensk stjórnvöld boðið hópi flóttamanna hæli hérlendis í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sveitarfélög í landinu og Rauða krossins. Síðast kom fámennur hópur kólumbískra flóttamanna til landsins í desember 2010.