Tíu fengu alþjóðlega vernd á síðasta ári - Afgreiðslutíminn styttist milli ára

Andra Karl fréttamann á Morgunblaðinu

4. feb. 2011

Tíu einstaklingar fengu alþjóðlega vernd hér á landi á síðasta ári, þ.e. stöðu flóttamanns eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og/eða vegna sérstakra tengsla við landið. Fimmtán einstaklingum var synjað um hæli og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og níu aðrir hælisleitendur voru sendir til annarra Evrópuríkja á grundvelli Dyflinnarsamstarfsins. Alls sótti 51 einstaklingur frá 22 ríkjum um hæli hér á landi. Greinin birtist í Morgunblaðinu 03.02.2011.

Umræða um innflytjendamál hefur verið nokkuð hávær á undanförnum árum og stuðningshópar risið upp hælisleitendum til aðstoðar í baráttunni um landvistarleyfi. Af nýrri samantekt Rauða krossins á Íslandi, um fjölda hælisumsókna á síðasta ári og ákvarðana Útlendingastofnunar og ráðuneytis dómsmála og mannréttinda, má ráða að aðeins hafi þokað í málaflokknum, þó eflaust þyki flestum enn margt ógert.

Afgreiðslutíminn styttist
Meðal þess sem nefna má stjórnkerfinu til tekna er að málshraði hjá Útlendingastofnun hefur aukist nokkuð. Að meðaltali tók það stofnunina 234 daga að afgreiða umsókn um hæli á síðasta ári, en þá er miðað við dagsetningu hælisumsóknar þar til birting ákvörðunar hefur farið fram. Til samanburðar má nefna að meðalafgreiðslutíminn árið 2009 var 303 dagar. Því er ljóst að afgreiðslutíminn hefur styst um 69 daga að meðaltali.

Lengstan tíma tók það Útlendingastofnun að afgreiða umsóknir sem enduðu með dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, eða 446 daga. Jafnframt styttist afgreiðslutíminn mest í þeim flokki eða um 116,5 daga frá fyrra ári. Stystan tíma tók að senda hælisleitendur á grundvelli Dyflinnarsamþykktarinnar, eða 81 dag. Styttist afgreiðslutími þar einnig töluvert, eða um 27 daga.

Málum 29 af 51 lauk á síðasta ári
Líkt og áður segir sótti 51 einstaklingur um hæli hér á landi á síðasta ári og lauk málum 29 þeirra á árinu. Í byrjun ársins voru því 22 þeirra mála enn til meðferðar hjá stofnuninni.

Af þessum 29 einstaklinum drógu ellefu umsækjendur umsóknir sínar til baka eða fóru af landi brott áður en umsókn þeirra var afgreidd. Níu þeirra var synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og átta sendir til baka á grundvelli Dyflinnarsamþykktarinnar. Einn fékk hér dvalarleyfi.
Þeir einstaklingar sem veitt var staða flóttamanns á árinu 2010 komu frá Íran, Erítreu og Senegal. Þeir sem fengu dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða koma frá Kenía, Afganistan og Úkraínu.

Íslenskan betri með hverjum deginum
Wali Safi Afgani fékk dvalarleyfi hér á landi í maí á síðasta ári, eftir langa baráttu. Hann kom til landsins í júní árið 2008 og þurfti að berjast við kerfið fyrir dvalarleyfinu. Safi fór meðal annars um tíma í felur vegna þess að flytja átti hann úr landi og til Grikklands.

En Safi er ánægður með lífið í dag, sem breyttist til muna með dvalarleyfinu. Hann á íslenska kærustu sem hann hefur verið með í um tvö ár og er stjúpfaðir fjögurra barna. Hann starfar við Dægradvöl í Salaskóla í Kópavogi og er að spá í að fara í tölvunarnám. Þá verður íslenska Safi betri með hverjum deginum „þannig að þetta er allt saman mjög fínt“. Spurður hvort stjórnvöld mættu betur gera í málefnum innflytjenda vísar hann spurningunni til þeirra sem bíða en segir hlutina vissulega hafa breyst til batnaðar síðan hann kom til landsins.

Þakklátur íslenskum vinum fyrir stuðninginn

Hassan Raza Akbari „Hlutirnir urðu svo miklu, miklu betri þegar ég fékk dvalarleyfið,“ segir Hassan Raza Akbari sem þurfti að bíða í eitt ár og sjö mánuði eftir dvalarleyfi sem hann fékk á síðasta ári. Nokkrum mánuðum áður stóð til að senda hann aftur til Grikklands. „Ég er mjög þakklátur íslenskum vinum mínum fyrir allan stuðninginn sem ég fékk. Ég er viss um að hann skipti sköpum.“

Akbari sem er 24 ára gengur vel að aðlagast lífinu á Íslandi. Hann er í Tækniskólanum á daginn að læra íslensku og vinnur á veitingastað á kvöldin. Hann segir að biðin og baráttan hafi á köflum verið honum afar erfið. Ekki síst á um sjö mánaða tímabili, þar sem ekkert virtist ganga upp og hann á leið úr landi. Hassan var á leið til Kanada en millilenti hér á landi og var þá stöðvaður. Þá átti hann engra annarra kosta völ en að sækja um hæli.

Skýrsla Rauða krossins
:

Fjöldi hælisumsókna á árinu 2010 og ákvarðanir Útlendingastofnunar og dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins á árinu 2010.