Alþjóðadagur flótttamanna 20. júní

16. jún. 2011

Þann 20. júní er alþjóðadagur flóttamanna. Ár hvert er þessi dagur notaður til að minna á stöðu flóttamanna um heim allan. Mikill fjöldi fólks sætir á degi hverjum ofsóknum, býr við stríðsástand og sætir grimmilegum mannréttindabrotum, og neyðist til flýja heimaland sitt til að bjarga lífi sínu.

Rauði kross Íslands vill nota tækifærið og vekja athygli á stöðu flóttamanna og þeirra sem leitað hafa hælis hérlendis. Rauði krossinn hefur ítrekað bent á að veita eigi hælisleitendum aðstoð lögmanns frá því að umsókn um hæli er lögð fram.

Þá telur Rauði krossinn eðlilegt að stjórnvöld skoði þann möguleika að bjóða einstaklingum sem hér óska verndar aðstoð og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu enda er nálægðin við stjórnvöld og aðra sem koma að málefnum hælisleitenda meiri.

Á undanförnum misserum hefur réttarstaða einstaklinga sem óska hælis á Íslandi breyst mikið til batnaðar, nú síðast með breytingum á lögum um útlendinga sem tóku gildi haustið 2010. Rauði krossinn fagnar þeim breytingum sem hafa leitt til betri stöðu einstaklinga sem óska hælis en félagið hefur á sama tíma beitt sér fyrir því að löggjöfin verði bætt enn frekar og framkvæmdin sömuleiðis.

Á Íslandi vinnur Rauði kross Íslands að málefnum flóttamanna og hælisleitenda í samvinnu við stjórnvöld og er samstarfsaðili Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) samkvæmt samningi frá 2001. Rauði krossinn hefur tekið að sér málsvarahlutverk og réttindagæslu hælisleitenda á Íslandi, ásamt því að aðstoða við móttöku og aðlögun flóttamanna sem stjórnvöld hafa boðið landvist hér á landi.

Hlutverk Rauða krossins er að fylgja því eftir að flóttafólk og hælisleitendur fái notið þeirra réttinda sem þeim ber samkvæmt lögum og alþjóðlegum samningum. Rauði krossinn er hins vegar ekki í þeirri aðstöðu að geta hlutast til um niðurstöðu einstakra mála þar sem mat á umsóknum einstaklinga er alfarið í höndum íslenskra stjórnvalda. Félagið leggur áherslu á bein samskipti við stjórnvöld og beinir ábendingum sínum og athugasemdum til viðkomandi stjórnvalda eftir þörfum.

Lengi vel var hælisleitendum sem veitt var hæli sem flóttamenn eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ekki boðin aðstoð og þjónusta sambærilegri þeim sem flóttamenn sem ríkisstjórnin býður til landsins fá. Rauði krossinn vakti athygli á þessari staðreynd og nauðsyn þess að koma til móts við þennan hóp. Árið 2007 gerði félagsmálaráðuneytið samning við Rauða krossinn um að félagið hefði umsjón með tiltekinni aðstoð við útlendinga sem fengið hafa dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða hæli sem flóttamenn. Tekið er mið af reglum flóttamannanefndar um aðstoð við flóttamenn sem koma til landsins í boði íslenskra stjórnvalda.

Frá því 2006 hefur Hafnafjarðardeild Rauða krossins haldið út verkefni heimsóknarvina og mánaðarlegu félagsstarfi fyrir hælisleitendur í Reykjanesbæ. Í félagsstarfinu er boðið upp á bæði dagsferðir sem og viðburði í Reykjanesbæ. Þar hefur Hafnarfjarðardeild notið liðsinnis Suðurnesjadeildar Rauða krossins sem leggur til húsnæði sitt undir félagsstarfið þegar á þarf að halda.

Vorið 2009 hófst verkefni í samstarfi við félög laganema í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Því er ætlað að stuðla að vandaðri umsóknum hælisleitenda um vernd og að og hverjum og einum hælisleitanda sé sinnt betur en áður. Laganemar, og útskrifaðir lögfræðingar, veita hælisleitendum þannig aðstoð við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við íslensk stjórnvöld frá fyrstu stigum málsins.

Rauði kross Íslands vonar heilshugar að almenningur á Íslandi verði áfram jákvæður í garð þeirra sem neyðast til að flýja heimaland sitt í von um að annað ríki veiti þeim þá vernd sem heimaríkið annað hvort getur ekki veitt eða vill ekki veita. Munum eftir flóttafólki í dag 20. júní og alla aðra daga.