Alþjóðadagur flóttamanna í dag

Kristján Sturluson framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands

20. jún. 2011

20. júní er alþjóðadagur flóttamanna. 60 ár eru frá samþykkt flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og 55 ár síðan Ísland fullgilti hann.

Milljónir manna eru á flótta til að bjarga lífi sínu. Flestir eru á flótta innan eigin landamæra en þeir sem flýja heimland sitt leita flestir til fátækra nágrannaríkja. Um 5% leita til Evrópu og aðeins nokkrir tugir til Íslands. Íslandi ber samkvæmt skuldbindingum sem stjórnvöld hafa undirgengist að veita þeim flóttamönnum sem hingað leita nauðsynlega alþjóðlega vernd.

Rauði krossinn vinnur hérlendis að málefnum flóttamanna og hælisleitenda í samvinnu við stjórnvöld og er samstarfsaðili Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna samkvæmt samningi frá 2001. Félagið sinnir málsvarahlutverki og réttindagæslu hælisleitenda og aðstoðar við móttöku og aðlögun flóttamanna sem stjórnvöld hafa boðið landvist. Rauði krossinn fylgist með að flóttafólk og hælisleitendur njóti réttinda samkvæmt lögum og alþjóðlegum samningum en getur hins vegar ekki hlutast til um niðurstöðu einstakra mála. Félagið leggur áherslu á bein samskipti við stjórnvöld og beinir ábendingum sínum og athugasemdum til þeirra eftir þörfum.

Réttarstaða einstaklinga sem óska hælis á Íslandi hefur batnað, síðast með breytingum á lögum um útlendinga haustið 2010. Löggjöfina og framkvæmdina þarf þó að bæta frekar.  Tryggja þarf að hælisleitendur fái aðstoð lögmanns frá upphafi hælisumsóknar, einfalda málsmeðferðina, gera hana skilvirkari og styttri. Alltaf þarf þó að tryggja að hver einstök umsókn fái eðlilega og réttláta málsmeðferð. Á kærustigi ætti sjálfstæður úrskurðaraðili að fjalla um kærur á neikvæðum ákvörðunum Útlendingastofnunar. Þá er eðlilegt að stjórnvöld skoði möguleika á að bjóða einstaklingum sem hér óska hælis aðstoð og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu í nálægð við stjórnvöld og aðra sem koma að málefnum þeirra.

Rauði kross Íslands vonar heilshugar að almenningur á Íslandi verði áfram jákvæður í garð þeirra sem neyðast til að flýja í leit að vernd. Munum eftir flóttafólki 20. júní og alla aðra daga.