Hælisleitendum boðið í skemmtiferð í tengslum við Alþjóðadag flóttamanna

20. jún. 2011

Sjálfboðaliðar Hafnarfjarðardeildar sem vinna í mánaðarlegu félagsstarfi hælisleitenda stóðu fyrir skemmtiferð undir leiðsögn í tilefni af Alþjóðadegi flóttamanna síðasta laugardag, þann 18. júní. Þátttaka var góð en að þessu sinni var farið um „heimaslóðir“ hælisleitenda, Reykjanesið, þar sem margir áhugaverðir staðir eru að sjá.

Ferðin hófst með heimsókn til tveggja listamanna sem kynntu list sína, glerblástur og kertagerð. Því var fylgt eftir með göngu meðfram höfninni í Gróf að Svartahelli þar sem skessan í hellinum býr. Skessan flutti til Reykjanesbæjar á Ljósanótt árið 2008 og hefur búið um sig í hellinum með góðu útsýni yfir Keflavíkina og Faxaflóann. Fannst hópnum þetta spaugilegt og gott myndefni. Næst var farið á Garðskaga þar sem boðið var upp á vöfflur og kaffi og notið útsýnis yfir hafið áður en Byggðasafnið var heimsótt og vitinn klifinn.

Veðrið skartaði sínu fegursta og það voru ánægðir ferðalangar sem gengu eftir ströndinni og nutu útsýnis í þeirri stórskornu náttúru sem er við Reykjanesströndina.