Hælisleitendur á Íslandi janúar til júní 2011

10. ágú. 2011

Á fyrstu sex mánuðum ársins 2011 sóttu alls 32 einstaklingar frá 18 ríkjum um hæli á Íslandi sem flóttamenn. Af þeim drógu þrír einstaklingar umsókn sína til baka áður en ákvörðun var tekin. Á sama tíma veitti Útlendingastofnun átta umsækjendum réttarstöðu flóttamanns, þar af einum á grundvelli viðbótarverndar og fjórum á grundvelli 3. mgr. 46. gr. laga um útlending sem aðstandandi flóttamanns. Umsóknir 26 einstaklinga voru enn til meðferðar hjá stofnuninni í lok júní 2011.

Útlendingastofnun tók alls 18 ákvarðanir varðandi umsóknir um hæli á fyrstu sex mánuðum ársins og var sem fyrr segir átta einstaklingum veitt réttarstaða flóttamanns. Sex einstaklingum var synjað um hæli og dvalarleyfi, fjórir einstaklingar voru endursendur til annars Evrópulands á grundvelli Dublinar samstarfsins og sem fyrr segir drógu þrír hælisumsókn til baka. Alls lauk því 21 málum hjá stofnuninni á fyrri hluta árs 2011.

Á tímabilinu 1. janúar til 30. júní 2011 úrskurðaði innanríkisráðuneytið í alls tveimur kærumálum sem vörðuðu umsóknir um hæli. Að auki voru kærur sem vörðuðu fimm einstaklinga dregnar til baka. Alls lauk því sjö málum á fyrri hluta ársins hjá ráðuneytinu.

Á fyrri hluta ársins 2011 mælti ráðuneytið í einu kærumáli fyrir um veitingu á réttarstöðu flóttamanns á grundvelli 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga og er það í fyrsta skipti skv. upplýsingum Rauða krossins sem ráðuneytið mælir fyrir um réttarstöðu flóttamanns. Ráðuneytið úrskurðaði einnig um mál íransks hælisleitenda sem hafði verið vísað til Grikklands á grundvelli Dublinar samstarfsins en beðið um endurupptöku máls síns. Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og lagði fyrir stofnunina að taka umsókn hans um hæli til efnismeðferðar. Hann bíður nú þess að verða fluttur til Íslands.

Í meðfylgjandi skjali fá finna nánari tölulegar upplýsingar varðandi fjölda hælisleitanda og fjölda ákvarðana stjórnvalda á fyrstu sex mánuðum ársins 2011.