Alþjóðleg vernd hælisleitenda frá Afganistan, Írak og Sómalíu í sex Evrópuríkjum

24. ágú. 2011

Nýlega gaf Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna út skýrsluna „Safe at last?“ sem fjallar um lagaumhverfi og framkvæmd í sex Evrópusambandsríkjum og þá vernd sem hælisleitendum sem flýja stríðsátök og handahófskennd ofbeldi er veitt í þessum sömu ríkjum. Tilgangur skýrslunnar var einkum að meta upp að hvaða marki tilskipun Evrópubandalagsins nr. 2004/83/EB frá 29. apríl 2004 veitir hælisleitendum þá vernd sem henni er ætlað. Einkum var horft til c-liðar 15. gr. tilskipunarinnar og hvernig ríkin beita ákvæðinu til að veita hælisleitendum frá Afganistan, Írak og Sómalíu vernd sem flýja handahófskennt ofbeldi og vopnuð átök.

Ísland er ekki bundið af ofangreindri tilskipun en við breytingar á lögum um útlendinga haustið 2010 var m.a. tekið mið af 15. gr. tilskipunarinnar og einkum c-lið hennar þegar svokölluð viðbótarvernd var lögfest í 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga nr. 96 frá 2002.

Í skýrslu Flóttamannastofnunar er varpað ljósi á mismunandi túlkun ýmissa ákvæða og hugtaka sem skipta máli þegar ákvarðað er um verndarþörf einstaklinga sem flýja handahófskennd ofbeldi í heimaríkjum sínum. Skýrslan leiðir í ljós að ósamræmið er í mörgum tilfellum ekki aðeins á milli ríkja heldur og einnig innan einstakra ríkja og stofnanna þess og/eða dómstóla. Raunar virðist ósamræmið ná til fleiri alþjóðlegra og evrópskra viðmiða þegar kemur að hælisumsóknum einstaklinga sem flýja handahófskennd ofbeldi.

Flóttamannastofnun gengur svo langt að segja að inntak c-liðar 15. gr. tilskipunarinnar dugi oft á tíðum skammt og aðeins hluti þeirra sem flýi handahófskennt ofbeldi fái þá alþjóðlegu vernd sem þeir eru í þörf fyrir. Með öðrum orðum, segir Flóttamannastofnun, hefur tilskipunin ekki náð því markmiði sem lagt er upp með að þátttökuríki beiti sömu viðmiðum til að aðgreina þá einstaklinga sem eru í þörf fyrir alþjóðlega vernd og að mörgum einstaklingum sé í framkvæmd ranglega neitað um þá vernd sem þeir eru í þörf fyrir. Það komi berlega í ljós þegar kemur að verndarveitingum á fyrsta stjórnsýslustigi gagnvart hælisleitendum frá Afganistan, Írak og Sómalíu, en rannsóknin tók einungis til hælisleitenda frá þessum ríkjum.

Hlutfall verndarveitinga var mjög mismunandi í þeim sex ríkjum sem rannsóknin tók til. Á árinu 2010 var hlutfall verndarveitinga afganskra hælisleitenda frá 9,7% í Bretlandi upp í 62,4% í Belgíu á fyrsta stigi. Hvað varðar hælisleitendur frá Írak fengu aðeins 10,9% þeirra vernd í Bretlandi á móti 78,5% í Belgíu. Aðeins um 34% sómalskra hælisleitenda var veitt alþjóðleg vernd í Hollandi á meðan hlutfallið var 89,4% í Þýskalandi.

Það er augljóst að mati Flóttamannastofnunar að hvorki flóttamannasamningnum né tilskipuninni er ekki beitt á sambærilegan hátt í þeim ríkjum sem rannsóknin náði  til. Til að ráða bót á ofangreindu leggur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna til úrbætur í níu liðum sem eru útskýrðir í skýrslunni en hana má nálgast hér.

Hælisleitendur frá Afganistan, Írak og Sómalíu á Íslandi á tímabilinu 2008-2010
Frá byrjun árs 2008 til loka árs 2010 sóttu alls 33 einstaklingar um hæli frá Afganistan (14), Írak (11) og Sómalíu (8) um hæli á Íslandi. Alls fengu fimm þeirra hæli sem flóttamenn og fjórir til viðbótar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og/eða vegna sérstakra tengsla við landið. Tveimur var synjað um hæli og 14 endursendir til annarra Evrópuríkja sem taka þátt í Dublinar samstarfinu svokallað. Þá drógu 7 umsóknir sínar til baka og eitt mál er enn til meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Sjá nánar í töflu hér að neðan.


Það sem af er árinu 2011 hafa alls tveir Afganir og tveir Íraka sótt um hæli en enginn Sómalíu. Mál ofangreindra eru til meðferðar hjá Útlendingastofnun.