Tólf milljónir ríkisfangslausra í heiminum

31. ágú. 2011

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur að undanförnu vakið athygli almennings og ríkisstjórna að enn eru um 12 milljónir karla, kvenna og barna ríkisfangslaus í heiminum. Það eru fleiri en búa samanlagt í Danmörku, Noregi, Íslandi, Færeyjum og Grænlandi.

Þar sem ríkisfangslausir einstaklingar eru tæknilega ekki ríkisborgarar neins ríkis er þeim oft neitað um grundvallarmannréttindi og um aðgengi að vinnumarkaði, húsnæði, menntun og heilbrigðisþjónustu. Sumir lenda í því að vera handteknir og dæmdir til fangelsisvistar því þeir geta ekki sýnt fram á hverjir þeir eru því þeir eiga hvorki vegabréf né önnur skilríki.

Yfirmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna bendir á að ríkisfangslausir einstaklingar séu í mikilli þörf fyrir aðstoð þar sem þeir lifi í mikilli lagalegri óvissu sem megi líkja við martröð. Staða ríkisfangslausra geri þá að hópi sem sé skilinn útundan og lifi á jaðri samfélaga. Hann bætir því við að það sé skammarlegt að milljónir manna séu án ríkisfangs og hvetur ríkisstjórnir til aðgerða í því augnamiði að draga úr fjölda ríkisfangslausra í heiminum.

Ísland er ekki aðili að tveimur alþjóðasamningum Sameinuðu þjóðanna sem varða stöðu ríkisfangslausra. Rauði kross Íslands hefur á undanförnum árum hvatt íslensk stjórnvöld til að Ísland fullgildi eða gerist aðili að þeim tveimur samningum sem varða stöðu ríkisfangslausra (Convention Relating to the Status of Stateless Persons frá 1954 og Convention on the Reduction of statelessness frá 1961).