Hælisleitendur

23. maí 2004

Í september árið 1999 var undirritaður samningur við Dómsmálaráðuneytið þar sem Rauði kross Íslands tók að sér ákveðið hlutverk í móttöku þeirra sem sækja um hæli sem pólitískir flóttamenn. Þetta felur í sér að Rauði krossinn útvegar hælisleitendum meðal annars húsnæði, framfærslu og lágmarks læknisaðstoð. Samkvæmt samningnum greiðir félagið uppihald hælisleitenda – það er húsnæði og framfærslu - fyrstu þrjá mánuðina sem þeir dvelja hér á landi en getur krafið stjórnvöld um útlagðan kostnað sem af áframhaldandi dvöl hælisleitanda hlýst eða allt til að endanlegt svar er gefið við beiðni hælisleitanda um dvalarleyfi hér á landi.

Greinileg aukning umsókna um pólitískt hæli varð eftir að Schengen samkomulagið gekk í gildi þann 25. mars 2001. Auk þess gekk í gildi svokallaður Dyflinarsamningur sem kveður á um hvaða ríki beri að taka við afgreiðslu umsóknar um hæli. Þetta hefur það í för með sér að þótt umsækjandi sæki um hæli á Íslandi getur komið í ljós að annað ríki beri ábyrgð á umsókn hans samkvæmt reglum Dyflinarsamningsins og hann verði sendur til þess ríkis þar sem umsókn hans verður tekin til umfjöllunar.

Fjöldi hælisleitenda síðustu ár gefur ágæta hugmynd um fjölgun hælisleitenda. Árið 1999 komu til landsins 17 hælisleitendur, árið 2000 voru þeir 24, árið 2001 voru þeir 52 og árið 2002 voru hælisleitendur 117. Samt sem áður leita afar fáir einstaklingar hælis á Íslandi miðað við nágrannaþjóðirnar og margir þeirra sem hingað koma hafa áður sótt um hæli annars staðar og eru þá sendir þangað aftur. Einungis einn hælisleitandi hefur fengið viðurkenningu sem flóttamaður hér á landi á undanförnum árum.

Rauði krossinn vinnur að málefnum hælisleitenda í samvinnu við stjórnvöld og í umboði Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og samkvæmt samningi við hana. Þá hefur Rauði kross Íslands lykilhlutverki að gegna við hingaðkomu flóttamanna, sem íslenska ríkið býður hingað til lands, venjulega í 20 – 30 manna hópum. Í mörgum löndum hefur Rauði krossinn tekið að sér margvísleg störf sem tengjast flóttamönnum og hælisleitendum, enda standa þeir oft berskjaldaðir við komuna í ókunnugt land.