Mikilvægt að hælisleitendum sé ekki refsað

16. nóv. 2012

Í umræðu undanfarið um málefni hælisleitenda og fórnarlömb mansals hafa verið dregnir fram ýmsir vankantar á þeim reglum sem nú gilda um málaflokkinn. Þeir sem til þekkja eru almennt sammála um að íslensk stjórnvöld þurfi að koma betur til móts við þá sem hingað leita hælis undan stríðsátökum og ofsóknum eða hafa jafnvel verið seldir hingað mansali.

Í sumar kom út skýrsla nefndar á vegum innanríkisráðuneytisins sem fjallaði um málefni útlendinga utan EES. Rauði krossinn á Íslandi og Mannréttindaskrifstofa Íslands fagna almennt tillögum nefndarinnar sem taka að verulegu leyti tillit til ábendinga og athugasemda sem félögin hafa haldið á lofti.

Mannréttindaskrifstofan og Rauði krossinn vilja sérstaklega vekja athygli á mikilvægi þess að innleidd verði í lög ákvæði sem miða að því að hraða málsmeðferð hælisumsókna og bæta hana. Afgreiðsla umsókna um hæli ætti að jafnaði ekki að taka lengri tíma en þrjá mánuði. Þá þyrfti að vera í lögum ákvæði um hámarksafgreiðslutíma umsókna enda hefur langur afgreiðslutími hælisumsókna almennt afar slæm áhrif á andlega og líkamlega heilsu hælisleitenda.

Brýnt er að komið verði á fót sjálfstæðum og óhlutdrægum úrskurðaraðila sem fari sjálfstætt yfir synjanir Útlendingastofnunar en ýmsar alþjóðastofnanir á sviði mannréttinda hafa borið brigður á núverandi fyrirkomulag þar sem innanríkisráðuneytið fer yfir neikvæðar ákvarðanir undirstofnunar sinnar. Önnur hugsanleg leið væri að hægt væri að kæra neikvæðar ákvarðanir Útlendingastofnunar beint til dómstóla. Þá er mikilvægt að nýtt ákvæði í útlendingalögum taki sérstaklega til þeirra hælisleitenda sem eru í mjög viðkvæmri stöðu og að réttindi barna verði styrkt verulega með nýjum málsmeðferðarreglum. Einnig er afar mikilvægt að tryggja frekar í lögum réttaröryggi útlendinga utan EES-svæðisins á Íslandi og fjölskyldna þeirra, s.s. hvað varðar jöfnun réttindasöfnunar meðal dvalarleyfisflokka og heildstætt mat á högum útlendings sem sækir um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Rauði krossinn og Mannréttindaskrifstofan telja sérstaklega mikilvæga tillögu sem sett er fram í skýrslunni um að lögfest verði sú meginregla að flóttamönnum og hælisleitendum sé ekki refsað fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum við komuna til Íslands. Það er afar íþyngjandi fyrir flóttamann að hefja nýtt líf í landinu með fjársekt og dóm á bakinu og stangast í ofanálag mögulega á við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.

Almennt eru tillögur nefndarinnar, og þær sem hér hafa verið tíundaðar, til þess fallnar að styrkja mannréttindi ásamt því að auka réttaröryggi og velferð einstaklinga sem hér óska hælis eða eru staddir á landinu. Rauði krossinn og Mannréttindaskrifstofan binda því vonir við að frumvarp til breytinga eða nýrra laga um útlendinga verði lagt fram á Alþingi á næstu vikum.