Hátíðarkvöldverður fyrir hælisleitendur

11. jan. 2013

Þann 29. desember síðastliðinn bauð Rauði krossinn í Hafnarfirði hælisleitendum á Íslandi í veislu í Hafnarfirðinum til að fagna nýju ári.
 
Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Hafnarfirði stóðu að undirbúningi og matseld sem tókst einkar vel. Nokkur fyrirtæki lögðu lið og gáfu matvæli til veislunnar. Án stuðnings þeirra væri ekki mögulegt að halda slíka veislu.
 
Aldrei hefur verið jafn fjölmennt í veislunni en hana sóttu hátt í hundrað manns bæði hælisleitendur sem og þeir sem veitt var hæli á síðastliðnu ári. Boðið var uppá lambalæri, lasagna og lax og grafin lax ásamt góður meðlæti. Að loknu borðhaldi horfðu gestir á flugeldasýningu Björgunarsveitar Hafnarfjarðar. 
 
Rauði krossinn í Hafnarfirði hefur umsjón með verkefnum í þágu hælisleitenda og flóttamanna. Hægt er að taka þátt í þrennskonar verkefnum þ.e. heimsóknum til hælisleitenda, félagsstarfi fyrir hælisleitendur og stuðningur við þá sem fá hér alþjóðlega vernd. Ef þú hefur áhuga á að gerast sjálfboðaliði hafðu samband við okkur í síma 565-1222 eða sendu póst á hafnarfjordur@redcross.is Leitað er að fólki 23ja ára og eldra sem talar a.m.k. eitt erlent tungumál reiprennandi (að norðurlandamálum undanskildum). Nauðsynlegt er fyrir sjálfboðaliða í hælisleitendaverkefnum að hafa bíl til umráða.