Harmar brottvísun pars frá Eritreu úr landi

14. mar. 2013

Rauði krossinn harmar niðurstöðu stjórnvalda um að vísa pari frá Eritreu úr landi. Konan hefur þegar verið send burt, en maðurinn á að fara í næstu viku. Rauði krossinn telur ekki rétt að beita Dyflinnarreglugerðinni til grundvallar brottvísun þeirra eftir 22 mánaða bið á því að mál þeirra sé tekið til meðferðar.

Rauði krossinn áréttar að parið eigi enga sök á þeim langa tíma sem málsmeðferð hefur tekið. Sá tími sem meðferð hælisumsókna taki sé almennt alltof langur, og hafi afar neikvæðar afleiðingar í för með sér og geti valdið óbætanlegu tjóni fyrir þann sem þarf að bíða þetta lengi.

Það þýði í raun að líf viðkomandi sé sett á ís á meðan stjórnvöld vinni að því að afgreiða umsóknina. Þannig sé því varið í máli þessara einstaklinga.

„Í þessu tilfelli erum við að tala um par sem hefur átt til meðferðar hælisumsóknir frá maí 2011 og er því heildarmálsmeðferðartími um 22 mánuðir og það án þess að umsóknir þeirra hafi fengið efnislega skoðun hérlendra stjórnvalda,” segir Atli Viðar Thorstensen, verkefnisstjóri hælisleitenda hjá Rauða krossinum. „Slíkur málsmeðferðartími er óþolandi. Að mati Rauða krossins verður að skoða mál með hliðsjón af málsmeðferðartíma þegar hann dregst á langinn, sérstaklega þegar umsækjendur eiga enga sök á töfum í málsmeðferð.“

Að auki er í þessu máli um að ræða par sem verður sent til sitthvors landsins sem leiðir til aðskilnaðar þeirra. Slíkt sé ekki rétt út frá mannúðarsjónarmiðum. Konan hefur þegar verið send til Þýskalands en maðurinn fer til Belgíu í næstu viku.  

Rauða krossinum er kunnugt um að parið hyggist leita til dómstóla til að fá skorið úr um réttmæti ákvörðunar íslenskra stjórnvalda að endursenda þau úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Með tilliti til dóma á undanförnum misserum verður að teljast afar brýnt að hælisleitendur eigi þess raunverulegan kost að sækja mál sín fyrir dómstólum.

Dómstólar hafa staðfest að bæði Útlendingastofnun og ráðuneytið sem æðra stjórnvald hafa ekki farið að ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð umsókna um hæli og þess vegna telur Rauði krossinn afar brýnt að parið sem hér um ræðir fái að dvelja hérlendis á meðan dómstólar skera úr um réttmæti þessarar ákvörðunar.