Það er rétt. Flóttamenn eiga rétt á aðstoð!

20. jún. 2013

Allir eiga rétt á því að sækja um og njóta verndar gegn ofsóknum og alvarlegum mannréttindabrotum. Því miður eru dæmi þess að stjórnvöld í Evrópu reyni að koma í veg fyrir að fólk nýti sér þennan rétt en það getur haft í för með sér að hælisleitendur lenda í mikilli hættu og verði jafnvel fórnarlömb mansals og ofbeldis.   

Þvert á það sem margir halda þá leita fæstir flóttamenn skjóls í Evrópu. Langflestir flóttamenn leita skjóls í nágrannaríkjum sínum sem oft eru fátæk og þar ríkir oft spenna eða jafnvel átök. Þannig hýsa t.d. Íran, Pakistan og Sýrland langflesta flóttamenn í heiminum.

Þótt Ísland sé eyland í eiginlegum skilningi þess orðs er svo ekki í raunveruleikanum. Við erum hluti af umheiminum. - Ríkisstjórnir hafa - stutt vopnuð átök í fjarlægum ríkjum og hingað leita einstaklingar sem hafa orðið fyrir barðinu á hörmungum stríðsátaka.

En íslensk stjórnvöld hafa einnig axlað ábyrgð og tekið á móti flóttamönnum í samvinnu við Flóttamannastofnun SÞ og veitt hluta þeirra sem sækja hér um hæli vernd. Það þarf hinsvegar að gera betur í þeim efnum.

Í dag á alþjóðadegi flóttamanna vill Rauði krossinn ítreka þá áherslu sína að stjórnvöld tryggi skjótari afgreiðslu á umsóknum hælisleitenda, til að koma í veg fyrir þá óvissu og jafnvel örvæntingu sem fólk finnur fyrir ef biðtíminn er of langur. Það er erfitt og mannskemmandi að bíða á milli vonar og ótta – jafnvel árum saman. Á meðan getur fólk hvorki tekið virkan þátt í íslensku þjóðfélagi né skipulagt framtíð sína.

Við  þurfum að hætta að fangelsa flóttamenn fyrir það eitt að framvísa fölsuðum skilríkjum enda brýtur slíkt líklega í bága við alþjóðlegar skuldbindingar stjórnvalda.

Við Íslendingar þurfum einnig  að taka á móti fleiri „kvóta“flóttamönnum í samvinnu við Flóttamannastofnun SÞ. Árið 2007 gerðu ráðherrar utanríkis- og velferðarmála með sér samkomulag um að taka árlega á móti hópi flóttamanna. Rauði krossinn vonar að - hægt verði að standa við það samkomulag þannig að árlega fái 25-30 flóttamenn öruggt skjól á Íslandi.

Hermann Ottósson framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.