Rauði krossinn styður sýrlenska flóttamenn á alþjóðadegi flóttamanna

20. jún. 2013

Rauði krossinn á Íslandi sendi í dag, á alþjóðadegi flóttamanna, 13 milljónir króna til hjálparstarfs Alþjóða Rauða krossins við flóttafólk frá Sýrlandi. Þar af er tíu milljóna króna framlag frá utanríkisráðuneytinu.  Flóttafólkið býr við óviðunandi aðstæður ýmist í tjöldum eða hjá ættingjum við þröngan kost.

Þvert á það sem margir halda þá leita fæstir flóttamenn skjóls í Evrópu. Langflestir flóttamenn leita skjóls í nágrannaríkjum sínum sem oft eru fátæk og þar ríkir oft spenna eða jafnvel átök. Þannig hýsa t.d. Íran, Pakistan og Sýrland langflesta flóttamenn í heiminum.

Alls hafa um 1,5 milljón manna flúið frá Sýrlandi og leitað hælis í nágrannalöndunum. Alþjóða Rauði krossinn hefur sent út hjálparbeiðni sem hljóðar upp á rúma 3 milljarða íslenskra króna til aðstoðar sýrlensku flóttafólki sem nú dvelur í Jórdaníu, Líbanon, og Írak.  

Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn sjá um að dreifa hjálpargögnum til flóttafólksins og veita þeim fjárhagsstuðning. Rauði krossinn sér einnig um að veita heilsugæslu, hreint vatn og sálrænan stuðning í flóttamannabúðum í þessum löndum.

Allir eiga rétt á því að sækja um og njóta verndar gegn ofsóknum og alvarlegum mannréttindabrotum. Í dag, á alþjóðadegi flóttamanna, vill Rauði krossinn ítreka þá áherslu sína að íslensk stjórnvöld tryggi skjótari afgreiðslu á umsóknum hælisleitenda, til að koma í veg fyrir þá óvissu og jafnvel örvæntingu sem fólk finnur fyrir ef biðtíminn er of langur.

Það er erfitt og mannskemmandi að bíða á milli vonar og ótta – jafnvel árum saman. Á meðan getur fólk hvorki tekið virkan þátt í íslensku þjóðfélagi né skipulagt framtíð sína. Rauði krossinn ítrekar einnig að hætta verði að fangelsa flóttamenn fyrir það eitt að framvísa fölsuðum skilríkjum, enda brýtur slíkt líklega í bága við alþjóðlegar skuldbindingar stjórnvalda.

Í tilefni alþjóða flóttamannadagsins hafa Rauða kross félög í Evrópu tekið höndum saman um að koma þeim skilaboðum skýrt á framfæri við stjórnvöld og almenning að allir eiga rétt á að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum. Öll ríki heims verða að virða þennan rétt og ekki síst friðsæl og auðug ríki.

Yfirlýsing Rauða krossins í Evrópu um flóttamenn