Sameiginleg yfirlýsing Rauða kross félaga í Evrópu

20. jún. 2013

Flóttamenn eiga rétt á vernd

Í tilefni af alþjóðadegi flóttamanna ítrekar Rauði krossinn á Íslandi ásamt Rauða kross félögum í Evrópu, rétt manna á því að sækja um og njóta alþjóðlegrar verndar gegn ofsóknum og alvarlegum mannréttindabrotum. Evrópsk landsfélög Rauða krossins hafa tekið höndum saman í herferð undir yfirskriftinni THAT’S RIGHT! Það er rétt! þar sem stjórnvöld eru minnt á að flóttafólk hefur rétt á að sækja um hæli þegar því er ekki vært í heimalandi sínu.

Rauði krossinn í Evrópu vill vekja umræðu um nauðsyn þess að setja upp réttlátt og skilvirkt lagaumhverfi í löndum álfunnar til að tryggja að hælisleitendur njóti þeirrar verndar sem alþjóðleg mannúðarlög segja til um. Flest landsfélög Rauða krossins í Evrópu gegna mikilvægu hlutverki til að tryggja að hælisleitendur og flóttamenn fái þá aðstoð sem þeim ber og njóti verndar og virðingar þar sem þeir leita hælis.

Því miður eru dæmi þess að stjórnvöld í Evrópu reyni að koma í veg fyrir að fólk nýti sér þennan rétt, og stefni þannig hælisleitendum í mikla hættu. Reynslan sýnir að neikvæðar fréttir af flóttafólki og hertar reglur um fólksflutninga milli landa hafa orðið til þess að fólk leitar nú hættulegri leiða til að leita sér verndar í öðrum ríkjum.  Það þýðir að þeir sem leita að öryggi og vernd verða kannski þess í stað fórnarlömb mansals, verði fyrir ofbeldi, nauðgun eða ráni, og að fjölskyldur þeirra tvístrist.

Það er rétt! aðgerðin er sameiginlegt átak Rauða kross félaga í Evrópu til að minna stjórnvöld og almenning á það að flóttamenn eiga margir hverjir afar erfitt með að flýja ofbeldi og ofsóknir í heimalandi sínu og sækja um hæli í öruggu landi. Á þetta ekki síst við um flóttamenn sem leita öryggis og friðar í Evrópu.
 
Í tilefni alþjóða flóttamannadagsins hafa Rauða kross félög í Evrópu því tekið höndum saman um að koma þeim skilaboðum skýrt á framfæri við stjórnvöld og almenning að allir eiga rétt á að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum. Öll ríki heims verða að virða þennan rétt og ekki síst friðsæl og auðug ríki.

Til að tryggja betur aðgengi flóttamanna að alþjóðlegri vernd þurfa ríki heims að opna löglega leið fyrir flóttamenn til að koma í veg fyrir að þeir þurfi að leggja upp í mikla hættuför sem getur jafnvel kostað þá lífið. Það er til dæmis hægt með því að bjóða fleiri flóttamönnum öruggt skjól í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og að veita þeim sem búa við stríðsástand og ofsóknir vegabréfsáritun til að bjarga lífi sínu.