Staðlaðar lausnir eru ekki heppilegar - Rauði krossinn vill fara varlega í lista yfir örugg lönd

22. ágú. 2013

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22.08.2013

„Við höfum alltaf hvatt til þess að það sé farið mjög varlega í að nota einhvern lista yfir örugg lönd. Það er erfitt að finna skilgreiningu á því hvað sé öruggt land og sú skilgreining verður ekki samræmd öðrum löndum,“ segir Atli Viðar Thorstensen, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi, varðandi hugmynd innanríkisráðherra að taka upp lausnir Norðmanna í hælismálum. Þar er notaður listi yfir örugg lönd sem á að flýta fyrir meðferð á hælisumsóknum, en Norðmenn afgreiða umsóknir mun fyrr en hér er gert. 48 klukkustunda kerfið sem stuðst er við í Noregi gengur út á að umsóknir séu teknar til skoðunar eða hafnað út frá lista yfir örugg lönd.

Mistök geta verið afdrifarík
Atli Viðar telur sérstakt ef eitt land getur skilgreint annað land sem öruggt en önnur lönd gera það ekki. „Við tökum undir að skjót málsmeðferð er lykilatriði, hún er mannúðleg svo lengi sem gætt er að öllu réttaröryggi fyrir þann sem er að biðja um hæli. Þá er mjög mikilvægt að viðkomandi fái að útskýra sitt mál fyrir Útlendingastofnun með talsmanni áður en ákvörðun er tekin,“ segir Atli Viðar sem telur mikilvægast að mál séu fullkláruð áður en gripið er til frávísunar og flóttamenn eru sendir úr landi.

 „Mistök geta verið mjög afdrifarík fyrir þá sem eru að biðja um hæli,“ segir Atli Viðar og bætir við að nauðsynlegt sé að tryggja að mál í flýtimeðferð fái það einnig á kærustigi. „Við leggjum áherslu á það að hver umsögn fái efnislega skoðun og teljum mögulegt að skoða mál vandlega á mjög skömmum tíma,“ segir Atli Viðar.

Ekki setja alla undir sama hatt
„Staðlaðar, sjálfkrafa lausnir hugnast mér ekki á flóknum mannréttindamálum,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður. Hann segir 48 tíma regluna sem byggt er á í Noregi ekki vera mjög afdráttarlausa. „Sumir af þeim sem falla undir hana í fyrstu umferð fara í venjulega hælismeðferð. Það koma alltaf í ljós mál sem virðast falla undir regluna en þarfnast meiri skoðunar en hægt er á 48 tímum,“ segir Ragnar, en hann hefur unnið mikið fyrir hælisleitendur hér á landi.

„Að setja alla sem koma frá Evrópulandi undir sama hatt og segja þá í góðu skjóli, tel ég ekki rétt. Eins og rómafólkið frá Króatíu og Rúmeníu, það getur verið full ástæða til að veita þeim vernd frá ofsóknum í heimalandinu,“ segir Ragnar, sem bætir við að hann sé virkilega ánægður með að innanríkisráðherra beiti sér fyrir því að sett verði á stofn óháð áfrýjunarnefnd í hælisleitendamálum. „Það er kominn tími til að hrinda því í framkvæmd, það hafa allir skilning á nauðsyn þess.“

Ánægð með frumkvæðið
„Við erum mjög ánægð með þetta frumkvæði ráðherrans í þessum málaflokki og við teljum að það þurfi ekki mikið til svo að hægt sé að breyta okkar kerfi þannig að það sé svipað og í Noregi,“ segir Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar. Hún segir þörf á að gera einhverjar reglugerðar- og lagabreytingar, en ekki þurfi að umturna lögunum.

„Ef við hefðum sama lagaumhverfi og í Noregi þá værum við að klára tilteknar umsóknir mjög hratt. Umsóknirnar sem við vorum með frá Króötunum hefðu til að mynda tekið mun skemmri tíma en ella.“