Fullt út úr dyrum á málþingi hælisleitenda

20. mar. 2014

Fullt var út úr dyrum á málþingi Rauða krossins Hælisleitendur segja frá sem haldið var í Háskóla Íslands. Finna mátti fyrir samstöðu fundargesta með hælisleitendunum, sem sýndu mikið hugrekki með því að ganga fram fyrir skjöldu og segja deila reynslu sinni.

Starfshópur stúdenta stóð fyrir málþinginu í samstarfi við sjálfboðaliða Rauða krossins á Íslandi, MARK (Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna) og námsbrautar í mannfræði við Háskóla Íslands.

Tveir hælisleitendur sem dvalið hafa hér á landi í allt að tvö ár án þess að fá úrlausn sinna mála sögðu sögu sína. Voru þeir sammála um að þessi langa bið í óvissu væri það erfiðasta í stöðunni. Allt væri sett á bið, draumar og væntingar um lífið sem allir ungir menn hefðu. Þeir væru hinsvegar settir í þá ómögulegu aðstöðu að geta ekki unnið eða menntað sig. Þó þeir þráðu ekkert heitar en að leggja sitt að mörkum til þjóðfélagsins meinaði þessi erfiða biðstaða þeim um að taka þátt í samfélaginu sem þeir þó væru hluti af.

Málþingið er hið fyrsta í röð málþinga með hælisleitendum, þar sem leitast verður við að ljá þeim rödd. Tilgangur málþingsins er að skapa vettvang fyrir raddir hælisleitenda þar sem fræðifólk, nemendur og almenningur geta fengið innsýn inn í þennan mikilvæga málaflokk út frá sjónarhorni einstaklinganna sjálfra og jafnframt með því að kynnast einstaklingunum sem eru að baki hverri hælisumsókn. Málþingunum er þannig ætlað að skapa vettvang þar sem hælisleitendur geta tjáð sig sjálfir um sín eigin mál og aðstæður.

Hælisleitendur eru fjarri því að vera einsleitur hópur, heldur er um að ræða fjölda einstaklinga, eins ólíka og mál þeirra eru, sem eiga sér ólíka sögu og upplifun.