• 12716139_755125311285036_1963649696766424187_o

Málsmeðferð hælisumsókna stytt

11. jún. 2014

Með það að markmiði að hraða málsmeðferð vegna hælisumsókna, bæta verklag og tryggja sem besta nýtingu fjármagns hafa innanríkisráðuneytið og Rauði krossinn á Íslandi í dag gert með sér samning um þjónustu við hælisleitendur. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Hermann Ottósson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, undirrituðu samninginn í höfuðstöðvum Rauða krossins í dag.

Undanfarið ár hefur mikil áhersla verið lögð á umbætur og endurskoðun á verklagi í innflytjendamálum og þá sérstaklega ört fjölgandi umsóknum vegna óska um alþjóðlega vernd. Innanríkisráðuneytið hefur lagt mikla vinnu í að undirbúa umræddar umbætur og byggt þær að mestu á reynslu, áherslum og aðferðum Norðmanna. Meginmarkmið þessara breytinga hefur einkum verið að fylgja eftir áherslum innanríkisráðherra, ríkisstjórnar og Alþingis um styttri málsmeðferð, en á umliðnum árum hefur afgreiðsla umræddra mála tekið allt upp í tvö til þrjú ár. 

Þrátt fyrir að umtalsverður árangur hafi náðst í að stytta þennan tíma og bæta verklag mun sá samningur sem nú hefur verið undirritaður við Rauða krossinn samhliða þeim lagabreytingum sem Alþingi samþykkti í lok þings, tryggja að raunverulegar breytingar eru nú í sjónmáli. Þannig er stefnt að því að frá og með 25. ágúst 2014 verði málsmeðferðartími hælisumsókna hér á landi að meðaltali ekki lengri en 90 dagar.