• 11427854_660622910735277_1990828649977850756_o

Skemmtu sér frábærlega í íslenskri náttúru

9. jún. 2015

Það var mikil gleði í loftinu nú undir lok maí þegar 45 manna hópur hælisleitanda, og þar af níu börn,  fékk einstakt tækifæri til að fara á vinsælustu ferðamannastaði Íslands; Gullfoss, Geysi og Þingvelli – hinn svokallaða „Gullna hring.“ Ferðin var í boði Péturs Jónassonar sem hafði heyrt um félagslega aðstoð Rauða krossins við hælisleitendur í gegnum dóttur sína, Hörpu Pétursdóttur, sem hefur verið ómetanleg í hlutverki sjálfboðaliða í verkefninu.

Pétur útvegaði rútu sem ferjaði hópinn milli staða en fyrsti áfangastaðurinn var sumarbústaður Péturs sjálfs, sem er staðsettur við Þingvallavatn. Þegar rútan lagði af stað á aðra áningastaði kom Pétur skemmtilega á óvart og tók að sér hlutverk leiðsögumanns og sá að lokum til þess að hópurinn fengi að kynna sér starfsemi Friðheima, þar sem umhverfisvæn tómataræktun fer fram. Hópurinn fékk að gæða sér á tómötum og nýlagaðri tómatasúpu sem var gerð á staðnum.

Einstaklega góður rómur var gerður að ferðinni meðal hælisleitenda. Flestir þeirra eru búsettir í Reykjanesbæ eða Reykjavík og fá sjaldan tækifæri til að virða fyrir sér gullfallega náttúru Íslands. Pétur gaf þeim einnig innsýn í sögu og landafræði Suðurlandsins sem hópnum þótti ómetanlegt.

Skemmst er að segja frá mesta ævintýrinu þegar börnin í hópnum fengu að kynnast nýfæddum lömbum sem komu í heiminn á jörðinni við hlið sumarbústað Péturs. Góður endir á frábærum degi.

11424443_660622900735278_8385339621107799442_n11230975_660622937401941_8167266698946687281_n