• Download

220 hafa leitað hælis á Íslandi á einu ári - Viltu þú taka þátt í félagsstarfi?

28. ágú. 2015

Eitt ár er liðið frá því að Rauði krossinn tók að sér réttindagæslu fyrir hælisleitendur þann 25.08.2015. Á þessu eina ári hafa 220 manns sótt um hæli á Íslandi. Rauði krossinn hefur kappkostað við að tryggja að málsmeðferð fari mannúðlega fram, samkvæmt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum. Þegar þetta er skrifað hafa 12 einstaklingar fengið alþjóðlega vernd á Íslandi.

Fólkið sem hingað hefur leitað er af 39 ólíkum þjóðernum. Langflestir sem hingað hafa leitað eru frá Albaníu en á eftir kemur fólk frá Makedóníu, Sýrlandi, Úkraínu og Írak.

Nú í ágústmánuði hafa 32 einstaklingar sótt um vernd en aldrei áður hafa umsækjendurnir verið jafn margir í einum mánuði - sem er þó ekki enn liðinn.
Fólk getur því rétt ímyndað sér að skjólstæðingar Rauða krossins meðal hælisleitenda skipta tugum á hverjum gefnum tíma. Mikilvægt er að hlúa vel að því fólki sem kemur hingað úr mjög erfiðum og andlega krefjandi aðstæðum. Þar getur þú lagt okkur lið, með því að taka þátt í félagslegum verkefnum með hælisleitendum.

Rauði krossinn skipuleggur fjölbreytt og skemmtileg verkefni fyrir sjálfboðaliða sem vilja taka þátt í félagsstarfi, heimsækja fólk og veita því stuðning eða leika við börn sem vantar félagsskap. Þeir sem hafa áhuga mega gjarnan hafa samband við Julie Ingham, julie@redcross.is, til að fá frekari upplýsingar.