• 11949467_702493083214926_7761469999786753756_n

Hælisleitendum boðið í réttir og hvalaskoðun

25. sep. 2015

Greinin birtist í Fréttablaðinu 25.09.2015

Félagsstarf hælisleitenda fer fram undir dyggri stjórn Julie Ingham, verkefnisstjóra hjá Rauða krossinum í Garðabæ og Hafnarfirði. Hún segir skipta miklu máli að aðstoða hælisleitendur þegar þeir koma til landsins. Þeir séu berskjaldaðir, réttlausir og standi í ströngu við að vinna að umsókn sinni um hæli. „Þá eru þeir búnir að sækja um hæli, fá miklar upplýsingar á stuttum tíma, fara í viðtal til lögreglu um aðstæður sínar. Þetta fólk er margt með litla enskukunnáttu en þarf að taka við miklu magni af upplýsingum á stuttum tíma. Á meðan ferlið stendur yfir er fólk kannski sett í búsetuúrræði. Þá er tilhneiging til einangrunar. Þetta félagsstarf sem við sinnum er því afar mikilvægt. Við erum með sjálfboðaliða sem fer í heimsóknir til hælisleitenda og býður þeim með sér í félagsstarfið.“

Félagsstarfið er margs konar. Einu sinni í viku er Rauði krossinn með opið hús fyrir hælisleitendur og reglulega er farið í skoðunarferðir. „Þá gefst fólki tækifæri til þess að hitta annað fólk, ef til vill úr sama menningarheimi eða sem talar sama tungumál. Þá förum við í ýmsar skoðunarferðir því það er nauðsynlegt að fólk þekki nágrenni sitt,“ segir hún en í september hafa hælisleitendur farið í réttir á Hraðastöðum, farið í hvalaskoðun og eldað og borðað saman.

Haelisleitendur_frettabladi

Í gær var hælisleitendum boðið í fría klippingu, þriðja árs nemar í hársgreiðslu buðu fram þjónustu sína. Julie segir félagsstarfið reiða sig á sjálfboðaliða og góðvild. „Hvalaskoðunarfyrirtæki hér í borg býður okkur reglulega í fríar ferðir og þá hefur Borgarsögusafnið boðið hælisleitendum frítt á söfn, Strætó keyrði okkur í réttir á Hraðastaði um daginn eftir að ég skoraði á þá að „Vera næs“ sem er átak á vegum Rauða krossins, þeir tóku vel í það sem var ánægjulegt.“

Hún segir starfið mikilvægan þátt í því að efla traust hælisleitenda á íslensku samfélagi en um leið læra af menningu þeirra. „Opin hús eru vettvangur fyrir fólk, í því felast tækifæri því hælisleitendur mynda tengsl við landið, hér er íslenskukennsla og kynning á íslenskri menningu. En við þiggjum líka menningu þeirra, hér snýst ekki allt endilega um íslenska menningu. Við erum fyrst og fremst að mynda tengsl og byggja traust. Fólk kemur jafnvel aftur þegar það hefur fengið hæli og tekur þátt í félagslífinu.“