Hælisleitendum boðið í gönguferð og grill

23. ágú. 2006

Fimmtudaginn 10. ágúst bauð Oddfellowstúkan Snorri Goði úr Garðabæ hælisleitendum til göngu og grills. Ágæt þátttaka var meðal hælisleitenda. Tveir aðilar komu frá Rauða krossinum auk stúkufélaga og maka þeirra.

Hópurinn var sóttur í Reykjanesbæ en ferðinni var heitið á Álftanes. Þar var gengið yfir á Skansinn undir góðri leiðsögn eins félagans í Snorra goða sem sagði skemmtilegar og fróðlegar sögur af kennileitum og fólki liðins tíma. Ferðin endaði síðan í Heiðmörk þar sem er góð grillaðstaða. Þar voru gómsætar steikur bornar fram með meðlæti.

Þegar gítarinn var tekinn upp söng hópurinn svo undir tók í skóginum. Yngsti hælisleitandinn, sex ára snáði, söng einsöng skemmtilegt lag sem hann hafði lært í leikskólanum sínum.

Veðurguðirnir voru mildir við hópinn og rigndi lítið sem ekkert.

Óhætt er að fullyrða að allir hafi skemmt sér hið besta og kunna Rauði krossinn og hælisleitendur  Oddfellowmönnum bestu þakkir fyrir boðið.