Alþjóðadagur flóttamanna haldinn á Íslandi á þjóðhátíðardaginn

16. jún. 2006

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur á síðastliðnum 55 árum hjálpað yfir 50 milljónum manna til að byggja líf sitt upp að nýju. Í dag er fjöldi þeirra sem Flóttamannastofnunin aðstoðar um 20 milljónir. Ísland hefur frá árinu 1956 tekið á móti um 450 flóttamönnum.
Þann 17. júní munu Rauði kross Íslands og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna halda sameiginlega upp á alþjóðadag flóttamanna með ljósmyndasýningu, leikjum og fræðsluefni í sérstöku tjaldi í Mæðragarðinum í Lækjargötu.  

Þykir vel við hæfi að nota þjóðhátíðardaginn til að vekja athygli á málefnum flóttamanna og hælisleitenda hérlendis sem vegna stríðsátaka, ofsókna eða ofbeldis hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín, fjölskyldu og ættjörð.

Alþjóðadagur flóttamanna er haldinn ár hvert um allan heim þann 20. júní. Fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Kristina Rodriguez, er stödd hér á landi í tilefni þess að dagurinn er haldinn hátíðlegur hér í fyrsta sinn og mun hún kynna starfsemi stofnunarinnar. Þema ársins í ár er von ? en það er einmitt í krafti vonarinnar sem flóttamenn um allan heim hafa yfirunnið gífurlega erfiðleika til þess að reyna að byggja líf sitt upp að nýju.  Hver flóttamaður á sína sögu en saga allra er sigur vonar yfir örvæntingunni.

Flóttamenn er ekki aðeins fórnarlömb, heldur koma með mikinn mannauð og lífga upp á menningu þeirra landa þar sem þeir setjast að. Þessari staðreynd vilja Rauði krossinn og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna halda á lofti með dagskrá sinni þann 17. júní og minna þjóðina jafnframt á að þeir sem komið hafa hingað til lands undir flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna eru einnig Íslendingar.

Íslensk stjórnvöld hafa frá árinu 1956 tekið á móti um 450 flóttamönnum í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossinn og sveitarfélög á Íslandi. Hingað til lands koma einnig einstaklingar sem óska eftir hæli á Íslandi sem flóttamenn og á undanförnum 10 árum hafa um 500 einstaklingar sótt um hæli á Íslandi. Hefur hluta þeirra verið veitt landvistarleyfi af mannúðarástæðum og einn fengið stöðu flóttamanns.

Dagskrá Rauða krossins og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Mæðragarðinum stendur yfir milli 14:00-18:00 á laugardeginum 17. júní.