Alþjóðadagur flóttamanna haldinn hátíðlegur

15. jún. 2006

       Alþjóðadagur flóttamanna haldinn hátíðlegur 17. júní 2006 kl. 14-18 í Mæðragarðinum í Lækjargötu

20. júní er Alþjóðadagur flóttamanna. Hér á Íslandi munum við nota 17. júní til að vekja athygli á stöðu flóttamanna og allra þeirra sem vegna stríðsátaka, ofsókna eða ofbeldis eru neyddir til að vera fjarri heimilum sínum.

Þema alþjóðadagsins í ár er VON en það er einmitt í krafti vonarinnar sem flóttafólk um allan heim hefur yfirunnið gífurlega erfiðleika til þess að reyna að byggja líf sitt upp að nýju. Hver flóttamaður á sína sögu en saga allra er sigur vonar yfir örvæntingunni.

Dagskrá verður í tilefni dagsins í Mæðragarðinum í Lækjargötu þar sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Rauði kross Íslands standa saman að kynningu á málefnum flóttamanna heima og heiman. Fulltrúar frá Reykjavíkurborg og Rauða krossinum kynna flóttamannaverkefnið í Reykjavík. Einnig verður ljósmyndasýning með myndum úr flóttamannabúðum, spil og fræðsluefni af ýmsu tagi.

Verið velkomin í tjald Rauða krossins og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Mæðragarðinum í Lækjargötu!