Fjöldi einstaklinga sem sækir um hæli í iðnríkjum hefur minnkað um helming

10. apr. 2006

Undanfarin fimm ár hefur fjöldi þeirra sem sækir um hæli í iðnríkjunum fallið um helming og hefur fjöldi hælisleitenda ekki verið lægri í nær tvo áratugi.

„Þessar tölur sýna að allt tal í iðnvæddu ríkjunum um aukin vandamál vegna hælismála endurspegla ekki raunveruleikann," sagði António Guterres yfirmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hann bætti við að í staðinn ættu iðnríkin að spyrja sig hvort strangari takmarkanir gagnvart hælisleitendum væru ekki aðeins til þess fallnar að skella hurðum á menn, konur og börn sem væru að flýja ofsóknir.

Síðan 2001 hefur fjöldi hælisumsókna dregist saman um 49%. Á síðasta ári voru lagðar inn 336.000 hælisumsóknir hjá iðnríkjunum sem er fækkun upp á 15% frá árinu 2004. Heildarfjöldi einstaklinga sem óskaði eftir hæli í iðnríkjunum 38 var sá lægsti frá árinu 1987. Í hinum 25 löndum Evrópusambandsins, og í Evrópu allri, var heildarfjöldi hælisumsókna sá lægsti frá árinu 1988. Á Íslandi fjölgaði hælisumsóknum hins vegar á árinu 2005 þegar að 87 umsóknir voru lagðar fram á móti 76 árinu áður.

„Með fjölda hælisleitenda í sögulegu lágmarki eru iðnríkin nú í stöðu til að verja meiri tíma og athygli í að bæta gæði þess kerfis sem tekur á móti og metur hælisumsóknir út frá því sjónarmiði að vernda flóttamenn í stað þess að draga úr fjölda þeirra," sagði António Guterres. Þrátt fyrir að margir haldi að flestir flóttamenn leiti til Evrópu þá er það ekki rétt því meirihluti flóttamanna dvelst í þróunarríkjum á borð við Tansaníu, Íran og Pakistan.

Rauði kross Íslands sinnir málsvarahlutverki og réttindagæslu hælisleitenda á Íslandi í umboði Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og samkvæmt samkomulagi við dómsmálaráðuneytið. Hægt er að sækja frekari upplýsingar um málefni hælisleitenda og flóttamanna á heimasíðunni með því að smella hér.

Heimild: UNHCR, Number of asylum seekers halved since 2001, 17. mars 2006.