Jólaball fyrir börn flóttamanna

Karen H. Theodórsdóttur

20. des. 2005

Nemendur IBM námsins í Menntaskólanum í Hamrahlíð héldu börnum flóttamanna veglegt jólaball.
Nú í haust voru settir á laggirnar Vinahópar fyrir börn flóttafólksins sem komu til landsins á árinu en verkefnið er samstarfsverkefni Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands og IBM námsins í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Nemendur IBM námsins hafa hitt börnin reglulega og gert ýmislegt skemmtilegt með þeim. S.l. laugardag buðu nemendurnir öllum börnunum, foreldrum þeirra, stuðningsfjölskyldum og starfsfólki Flóttamannaverkefnisins á jólaball sem var haldið í sal Menntaskólans. Fengu þau til liðs við sig tónlistarfólk sem eru útskrifaðir nemendur MH til að spila og syngja jólalögin.

Það var fjör þegar dansað var í kringum jólatréð og íslensku jólalögin sungin með tilþrifum.
Þó hátíðarhöldin séu með ólíku sniði hér á landi og í þeim löndum sem fólkið kemur frá reyndu allir að taka þátt í söng íslensku jólalaganna eftir bestu getu og stigu dansinn í kringum jólatréð af mikilli innlifun. Ekki er þó hægt að ímynda sér hvað flaug í gegnum huga þeirra þegar þvotturinn var þveginn, teygður og straujaður, gengið var vasklega inn kirkjugólfið og hoppað og stappað yfir hin ýmsu lönd en allir virtust þó skemmta sér hið besta. Eftir dansinn var boðið upp á kaffi og kökur.