Alþjóðadagur flóttamanna haldinn hátíðlegur á Íslandi

Ómar H. Kristmundsson og Atla Viðar Thorstensen

17. jún. 2006

   
Ómar er formaður Rauða kross Íslands og Atli Viðar verkefnisstjóri í málefnum flóttamanna og hælisleitenda hjá Rauða krossi Íslands.

20. júní er alþjóðadagur flóttamanna. Hér á Íslandi munu Rauði krossinn og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna nota 17. júní til að vekja athygli á stöðu flóttamanna og allra þeirra sem vegna stríðsátaka, ofsókna eða ofbeldis eru neyddir til að vera fjarri heimilum sínum.

Flóttamenn eru ósköp venjulegt fólk sem hefur orðið fórnarlömb hörmulegra aðstæðna í heimalandi sínu. Öfugt við Íslendinga og aðra sem kjósa að flytjast á milli landa af ýmsum ástæðum, þá kjósa flóttamenn ekki að flytjast búferlum í ókunnugt og framandi land. Flóttamenn neyðast til að flýja heimili sín, neyðast til að fara frá fjölskyldu sinni og vinum. Bakgrunnur og saga hvers flóttamanns er mismunandi. Sumir eru efnaðir, aðrir fátækir. Sumir vel menntaðir og aðrir ómenntaðir. Sumir eru ungabörn á meðan aðrir eru háaldraðir. Allir eiga þeir þó einn sameiginlegan draum sem tengir þá saman: þá dreymir um og vonast eftir bjartari framtíð og möguleika á friðsælu lífi í öruggu landi eins og annað fólk.

Þema alþjóðadagsins í ár er VON en það er einmitt í krafti vonarinnar sem flóttamenn um allan heim hafa yfirunnið gífurlega erfiðleika til þess að reyna að byggja líf sitt upp að nýju. Hver flóttamaður á sína sögu en saga allra er sigur vonar yfir örvæntingunni.

Samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna er flóttamaður sá sem er utan heimalands síns ?og af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands...?.

Það er mikilvægt að hafa í huga að flóttamenn eru ekki aðeins fórnarlömb. Flóttamenn koma með mikinn mannauð og lífga upp á menningu landa. Allir vita hver Albert Einstein var. Það vita hins vegar ekki allir að hann var flóttamaður. Madeleine Albright, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var líka flóttmaður og sömuleiðis Miriam Makeba sem nýlega söng á Listahátíð í Reykjavík.

Árið 1950 var Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna stofnuð. Mikilvægasta hlutverk hennar er að tryggja að grundvallarmannréttindi flóttamanna séu virt og að enginn sé sendur nauðugur til lands þar sem hætta er talin á að viðkomandi verði fyrir ofsóknum. Flóttamannastofnun vinnur oft náið með ríkisstjórnum og biðlar stundum til þeirra um að taka á móti flóttafólki sem getur ekki snúið til heimkynna sinna og vantar öruggt land til að búa í.

Flóttamannastofnun SÞ hefur á síðastliðnum 55 árum hjálpað yfir 50 milljónum manna við að byggja líf sitt upp að nýju ? og það starf heldur áfram í 100 löndum. Í dag aðstoðar Flóttamannastofnunin um 20 milljónir einstaklinga. Stofnunin hefur tvívegis fengið friðarverðlaun Nóbels fyrir störf sín í þágu flóttafólks, árin 1954 og 1981. Rauða kross hreyfingin hefur aðstoðað flóttamenn frá árinu 1875.

Íslensk stjórnvöld hafa frá árinu 1956 tekið á móti um 450 flóttamönnum í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossinn og sveitarfélög á Íslandi. Á síðasta ári tók Reykjavíkurborg í samvinnu við Rauða krossinn á móti 31 flóttamanni frá Kólumbíu og Kosovo. En einnig koma hingað til lands einstaklingar sem óska eftir hæli á Íslandi sem flóttamenn og á undanförnum 10 árum hafa um 500 einstaklingar sótt um hæli á Íslandi. Hefur hluta þeirra verið veitt landvistarleyfi af mannúðarástæðum og einn fengið stöðu flóttamanns.

Í tilefni alþjóðadags flóttamanna munu Rauði kross Íslands og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna standa saman að kynningu á málefnum flóttamanna og hælisleitenda heima og heiman og verður dagskrá í Mæðragarðinum í Lækjargötu á milli kl. 14:00 og 18:00 þann 17. júní. Fulltrúar frá Reykjavíkurborg og Rauða krossinum kynna flóttamannaverkefnið í Reykjavík. Einnig verður ljósmyndasýning með myndum úr flóttamannabúðum, spil og fræðsluefni af ýmsu tagi.

Verið velkomin í tjald Rauða krossins og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Mæðragarðinum í Lækjargötu!