Skýrsla um reynslu og viðhorf flóttamanna á Íslandi

5. jan. 2006

Skýrslan var unnin af Félagsvísindastofnun fyrir Flóttamannaráð Íslands árið 2005.

Frá árinu 1956 hafa íslensk stjórnvöld boðið 431 flóttamanni landvist á Íslandi. Af þeim komu 204 á árunum 1956 til 1991. Frá árinu 1996 hafa svo komið hópar flóttamanna hingað til lands árlega fyrir utan árin 2002 og 2004. Móttaka flóttamanna á Íslandi er samvinnuverkefni stjórnvalda, sveitarfélags og Rauða krossins.

Almennt hefur verið talið að aðlögun flóttamannanna að íslensku samfélagi hafi tekist nokkuð vel en engin heildarrannsókn hafði þó verið gerð þar um. Á árinu 2004 bað Flóttamannaráð Íslands að framkvæma rannsókn til að skoða með markvissum og áreiðanlegum hætti hvernig flóttamönnum hafi gengið að aðlagast íslensku samfélagi og hvert viðhorf þeirra væri til samfélagsins. Einnig var reynt að meta ánægju flóttamannanna með þá þjónustu sem þeim var veitt, hvaða traust þeir báru til hinna ýmsu stofnanna og hvernig líf og lífsgæði þeirra í heimalandi voru áður en að þeir höfðu hrakist að heiman og gerðir að flóttamönnum.

Rannsókn Félagsvísindastofnunar var framkvæmd þannig að spurningarlistar voru sendir til þeirra flóttamanna sem hingað höfðu komið. Þeir sem voru 18 ára og eldri fengu sér spurningalista og þeir sem voru 13 til 18 ára fengu sér spurningalista. Einnig voru tekin viðtöl við nokkra aðila og fjölskyldur. 

Helstu niðurstöður könnunarinnar:

Búseta
Könnunin leiddi í ljós að flestum fannst frekar gott eða mjög gott að búa á Íslandi og um helmingur svarenda bjó í eigin húsnæði. Rúmur helmingur svarenda leit á Ísland sem sitt heimaland en aðrir litu á sitt upprunaland sem sitt heimaland.

Tungumálakunnátta
Meirihluti svarenda sagðist alltaf tala móðurmál sitt við börn sín. Um 55% svarenda taldi sig hafa mjög góðan eða góðan skilning á íslensku á meðan 27% taldi sig hvorki hafa góðan né slæman skilning á íslensku. Aðeins 15% taldi sig hafa slæman skilning á íslensku. Ekki kemur á óvart að um 85% svarenda hafði áhuga á að bæta íslenskukunnáttu sína og um helmingur hefði kosið lengri stuðning við íslenskunám.

Þátttaka í stjórnmálum
Rannsókn Félagsvísindastofnunar leiddi í ljós að þátttaka í stjórnmálum á meðal flóttamanna var frekar lítil. Þegar skýringa er leitað á því kemur í ljós að þeir sem ekki kusu sögðu annað hvort að þeir hefðu ekki getað kosið vegna þess að þeir höfðu ekki íslenskt ríkisfang eða vegna þess að þeir höfðu ekki verið komnir hingað til lands fyrir kosningarnar 2002 og 2003 sem könnunin tók til.

Um 60% taldi að stjórnmálaflokkar á Íslandi gætu gert mun betur í kynningarstarfi sínu fyrir fólk af erlendum uppruna. Rannsóknin leiddi í ljós að um 90% taldi að þau myndu kjósa í næstu kosningum.

Atvinnumál
Meirihluti var í vinnu hér á landi og hafði um helmingur skrifað undir ráðningarsamninga. Flestir töldu að menntun sín nýttist ekki sem skyldi í starfi og má í því sambandi benda á að í upprunalandi hafði 19% svarenda starfað í ósérhæfðu starfi á móti 47% hér á landi. Um 10% hafði unnið við skrifstofustarf í upprunalandi en aðeins 3% hér á landi.

Traust til stofnana og einstaklinga
Um 73% svaranda kvaðst bera fullkomið traust til Íslendinga eða treysta þeim frekar vel. Aðeins 2% treysti Íslendingum frekar illa en 24% kváðust hvorki treysta þeim né vantreysta. Þegar kemur að stofnunum kváðust flestir bera mjög mikið eða mikið traust til Rauða krossins og lögreglunnar.

Hægt er að nálgast skýrsluna með því að smella hér