24 flóttamenn frá Kólumbíu og 7 frá Kósóvó til landsins á þessu ári

Rúnar Pálmason

20. sep. 2005

Þúsundir manna hafa orðið að flýja borgarastyrjöldina í Kólumbíu á undanförnum árum. Hér eru starfsmenn Rauða krossins að skrá konu sem hefur orðið að flýja heimili sitt í Corona þorpi.
Morgunblaðið, mánudaginn 19. september, 2005

Mæður og börn á flótta -Fimm einstæðar mæður frá Kólumbíu og börn þeirra fá hæli hér á landi í ár.

Flýja borgarastyrjöld, ofsóknir og glæpagengi
Borgarastyrjöld hefur geisað linnulítið í Kólumbíu í um fjóra áratugi og á hverju ári falla þúsundir manna í valinn. Í fyrra var talið að um 1,2 milljónir af þeim 45 milljónum sem búa í Kólumbíu séu á flótta innan Kólumbíu undan ofsóknum og stríðsátökum. Skæruliðar heyja blóðuga baráttu gegn stjórnvöldum og glæpahópar vaða uppi. Morð, pyntingar, nauðganir og mannrán eru daglegt brauð í sumum hlutum landins.

Fimm einstæðar mæður með 2-4 börn, ein amma, systir einnar móðurinnar og ung kona, alls 24 einstaklingar. Þetta eru kólumbísku flóttamennirnir sem eru nýkomnir til landsins eða eru væntanlegir innan skamms. Að auki er sjö manna fjölskylda frá Kósóvó komin til landsins.

Það er engin tilviljun að svo margar einstæður mæður eru í hópnum frá Kólumbíu. Samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna eru einstæðar mæður sem hafa þurft að flýja heimkynni sín í Kólumbíu í sérstaklega erfiðri stöðu og af þeim sökum er lögð áhersla á að þær fái hæli í löndum þar sem betur er búið að þeim. Ísland þykir raunar sérlega vel til þess fallið að taka á móti einstæðum mæðrum og fjölskyldum þeirra þar sem hér er þetta viðurkennt fjölskyldumynstur og velferðarkerfið tekur á ýmsan hátt tillit til þeirra.

Konur í meiri hættu
Einstæðar kólumbískar mæður sem hafa neyðst til að leggja á flótta eru í meiri hættu en margir aðrir í hópi flóttamanna. Lengi hefur verið ljóst að konur í hópi flóttamanna eru í meiri hættu en karlmenn. Þær eru áreittar og ofsóttar á ýmsa vegu og eru auk þess í mikilli hættu á að verða fyrir líkamsárásum, þar á meðal kynferðislegu ofbeldi. Þá hefur einstæðum mæðrum reynst afar erfitt að koma undir sig fótunum á nýjan leik vegna fordóma. Varla þarf að fara mörgum orðum um áhrif stríðs á börn.

Hópurinn sem kemur til Íslands hefur um hríð dvalið í Ekvador og Kosta Ríka. Þar er fólkið vissulega öruggara en í Kólumbíu en engu að síður lítur Flóttamannastofnun SÞ svo á að öryggi þeirra sé ekki tryggt, að sögn Þórunnar Júlíusdóttur, verkefnisstjóra hjá Rauða krossi Íslands, sem annast móttöku flóttamannanna ásamt velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Líkt og í Kólumbíu mæti konurnar ýmsum fordómum í Kosta Ríka og Ekvador og verða jafnvel fyrir árásum og ofsóknum af hálfu heimamanna.

"Þær eru ekki metnar að verðleikum og fá ekki tækifæri," segir hún. Konurnar geti ekki snúið aftur til Kólumbíu miðað við núverandi ástand og í Kosta Ríka og Ekvador sé litið niður á þær, í fyrsta lagi vegna þess að þær eru flóttamenn og í öðru lagi vegna þess að þær séu einstæðar mæður. Þeim eru þó ekki allar bjargir bannaðar því margar þessara kvenna hafa menntað sig, ein er t.a.m. handverkskona og önnur lærði hárgreiðslu.

Áhersla á íslenskunám
Flóttamennirnir fá allir íbúð í Reykjavík og munu börnin og unglingarnir sækja Austurbæjarskóla og Iðnskólann og fullorðna fólkið stunda íslenskunám í vetur. Rauði krossinn útvegar þeim stuðningsfjölskyldur og er miðað við að 4-5 íslenskar fjölskyldur verði hverri fjölskyldu flóttamanna innan handar og aðstoði þær við að aðlagast íslensku samfélagi. Þá mun Velferðarsvið Reykjavíkurborgar annast nauðsynlega þjónustu.

Það var Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna sem fór fram á það að Ísland tæki á móti flóttamönnunum. Ingibjörg Broddadóttir, deildarstjóri innflytjendamála í félagsmálaráðuneytinu, segir að íslenskt samfélag þyki á margan hátt sérlega vel í stakk búið til að taka á móti hópnum og vísar til þess að hér sé algengt að börn alist upp hjá einstæðum mæðrum sínum.

451 flóttamaður á 50 árum
Þegar flóttamennirnir verða allir komnir til landsins hefur alls 451 flóttamaður komið hingað frá árinu 1956, að jafnaði um níu á ári. Frá 1996 hefur verið tekið á móti flóttamönnum á hverju ári, að árunum 2002 og 2004 undanskildum. Að sögn Ingibjargar hefur ríkisvaldið ekki tekið formlega ákvörðun um hvort tekið verði á móti flóttamönnum á hverju ári, líkt og mörg vestræn ríki hafi gert og Flóttamannahjálp SÞ telur æskilegt. "Við stöndum okkur samt ágætlega. Við stöndum sómasamlega að því að leggja fjármuni til Flóttamannahjálparinnar. Og stærð hópanna sem við tökum á móti er viðunandi," segir hún.

Eftir því sem ástandið í hælislandinu er betra, þeim mun auðveldara er fyrir flóttamenn að aðlagast. Aðspurð segir Ingibjörg að ástandið á vinnumarkaði um þessar mundir muni að sjálfsögðu gera flóttamönnunum auðveldara að hefja nýtt líf hér á landi en hún tekur skýrt fram að íslensk stjórnvöld hafi aldrei tekið tillit til atvinnuástands þegar ákvarðanir hafi verið teknar um að veita flóttamönnum hæli.

Stærsti hópurinn kom frá Ungverjalandi árið 1956, alls 52. Fram til ársins 1991 komu sex hópar til viðbótar og frá árinu 1996 hefur verið tekið á móti flóttafólki á hverju ári, að árunum 2002 og 2004 undanskildu.