Alþjóðadagur flóttamanna

Kofi A Annan

27. jún. 2005

Ávarp framkvæmdastjóra Sameinuðu Þjóðanna á Alþjóðadegi flóttamanna 20. júní 2005.

Flest okkar kynnumst aldrei af eigin raun þeirri skelfingu, ótta, átökum og ofsóknum sem valda því að milljónir manna um allan heim leggjast á flótta. Við gleymum auðveldlega að flóttamenn eru fólk eins og við sem eiga heimili, fjölskyldur, atvinnu og drauma. Allt þetta verður fólkið að segja skilið við þegar það leitar skjóls á ókunnum slóðum. Þetta venjulega fólk verður að horfast í augu við óvissa framtíð og safna auka kjarki til að byggja upp líf sitt að nýju.

Á alþjóðadegi flóttamanna heiðrum við óbilandi kjark og baráttuanda milljóna flóttamanna um allan heim. Margir verða að þola miklar þjáningar án þess að missa vonina og finna kraft til að sigrast á örvæntingu og byrja nýtt líf við erfiðar aðstæður. Við sjáum kjark þeirra í flóttamannabúðum hvarvetna í Asíu og Afríku þar sem heilu fjölskyldurnar sækja sér nýja þekkingu á námskeiðum og bíða í ofvæni þess dags þegar það getur snúið heim og byggt upp líf sitt og landa sinna að nýju. Við sjáum þetta í Afganistan, Angóla, Sierra Leone og tugum annara ríkja þar sem milljónir flóttamanna eru á leið heim til stríðshrjáðra landa sinna að nýju, vongóðir um bjartari framtíð. Og við sjáum þetta líka í bæjum og borgum um allan heim þar sem flóttamenn sem ekki geta snúið heim, hafa tekið sér bólfestu, blásið nýju lífi í samfélögin sem tekið hafa við þeim, auðgað þau jafnt efnalega sem menningarlega.

Síðastliðna fimm áratugi hefur Flóttamannahjálp Sameinuðu Þjóðanna (UNHCR) aðstoðað meir en 50 milljónir manna sem flosnað hafa upp frá heimilum sínum, við að endurreisa líf sitt. Nú starfar Flóttamannahjálpin í 115 löndum sem mörg hver eru á meðal erfiðustu og hættulegustu staða heims og sinnir 17 milljónum flóttamanna og öðrum bágstöddum. Starfsfólkið þarf líka á óbilandi kjarki að halda í starfi sínu, kjarki sem fólkið sem það þjónar, blæs því í brjóst. Eins og einn starfsmaður Flóttamannahjálparinnar orðaði það eitt sinn þegar verulega gaf á bátinn: Ef flóttamennirnir hafa ekki misst alla von, hvernig getum við það?

Saga sérhvers flóttamanns er einstök og sama gildir um missi hans. En á þessum alþjóðadegi flóttamanna skulum við öll láta okkur að kenningu verða kjark og þrautseigju flóttamanna í að yfirvinna erfiðleika og byggja upp betri framtíð.

Kofi A. Annan,
Framkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna