Ísland og flóttamenn

Atla Viðar Thorstensen

20. jún. 2005

Inngangur
Undanfarin ár hefur 20. júní verið tileinkaður þeim milljónum manna, kvenna og barna sem neyðst hafa til að leggjast á flótta frá heimkynnum sínum vegna stríðsátaka og ýmissa ofsókna. Saga hvers flóttamanns er einstök og engin saga er nákvæmlega eins. Við sem lifum í tiltölulega öruggu og friðsælu umhverfi eigum erfitt með að gera okkur í hugarlund hvaða aðstæður og ofsóknir flóttafólk er að flýja enda eru flest átök og neyðir fjarri Íslandsströndum og flestum okkar aðeins kunn í gegnum fjölmiðla.

Fjöldi flóttamanna í heiminum
Um áramótin 2004 taldi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að um 17 milljónir manna, kvenna og barna hefðu verið hrakin frá heimilum sínum. Það jafngildir um 70% íbúa Norðurlanda. Flestir flóttamenn leita skjóls nágrannaríkjum sínum sem eru oft mjög fátæk ríki. Fæstir flóttamenn koma til Evrópu enda leiðin til vesturs oft bæði löng og dýr og í mörgum tilfellum lífshættuleg.

Flóttafólk er ósköp venjulegt fólk sem er oftast fórnarlömb hörmulegra aðstæðna og átaka. Það hefur neyðst til að flýja heimkynni sín, í mörgum tilfellum misst allt sitt og stendur berskjaldað eftir. Eins og annað fólk þarf flóttafólkið þak yfir höfuðið, mat og aðhlynningu. Flestir flóttamenn vilja snúa aftur til síns heima en þegar að ljóst þykir að sá möguleiki sé ekki fyrir hendi reynir Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna oft að flytja flóttamennina til búsetu í þriðja landi. Þannig er ástatt um það flóttafólk frá fyrrum Júgóslavíu og Kólumbíu sem ríkisstjórn Íslands hefur boðið að setjast að hér á landi í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Flóttamannaráð og Rauða kross Íslands. Er einkum um að ræða einstæðar konur og börn þeirra, en um 80% flóttamanna í heiminum eru talin vera konur og börn.

Ástandið í fyrrum Júgóslavíu og Kólumbíu
Ástandið í fyrrum Júgóslavíu og Kólumbíu er afar slæmt og ólíkt því sem við eigum að venjast hér á Íslandi. Enda þótt nokkur ár séu liðin frá lokum stríðsátaka í fyrrum Júgóslavíu eru þar enn um hálf milljón manna, kvenna og barna sem hafa enn ekki getað snúið til síns heima. Sum þeirra hafa dvalist í flóttamannabúðum í meira en tíu ár við afar bágar aðstæður og mörg börn eru fædd og uppalin í flóttamannabúðum.

Í Kólumbíu hafa geisað átök í um 40 ár og er landið oft talið vera það hættulegasta í heimi. Auk stríðsátaka er mikil fátækt í landinu, en talið er að um 65%-70% þjóðarinnar dragi fram lífið langt undir fátækramörkum. Skæruliðahópar eru margir og ráða yfir stórum landssvæðum og herja á íbúa svæða sinna með ýmsum hætti. Um 500 manns neyðast þannig til að yfirgefa heimili sín á hverjum degi vegna átakanna en talið er að um tvær milljónir manna hafi þurft að yfirgefa heimili sín sl. 10 ár vegna átakanna.

Móttaka flóttamanna og Rauði krossinn
Frá árinu 1956 hafa komið rúmlega 400 flóttamenn til Íslands í boði ríkisstjórnar Íslands og hefur Rauði kross Íslands aðstoðað við móttöku og aðlögum allra flóttamannanna. Einn mikilvægasti þátturinn í starfi Rauða krossins hefur verið að skipuleggja aðstoð við hina nýju íbúa þannig að þeir verði virkir þátttakendur í samfélaginu. Sjálfboðaliðar hafa gefið sig fram og tvær til þrjár fjölskyldur hafa stutt hverja flóttamannafjölskyldu og verið leiðsögumenn þeirra inn i hið nýja samfélag. Þetta stuðningsmannakerfi hefur tekist afar vel og vakið verðskuldaða athygli hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem hyggst kynna íslenska stuðningsmannakerfið í nágrannaríkjunum.

Árið 2003 tók Akureyrarbær á móti hópi flóttamanna frá Króatíu sem hafði dvalist í flóttamannabúðum í nokkur ár. Akureyrardeild Rauða krossins fékk í lið með sér sjálfboðaliða sem aðstoðuðu flóttamennina með ýmsum hætti að komast inn í íslenskt samfélag. Gafst þetta fyrirkomulag mjög vel og voru bæði flóttamennirnir og fjölskyldur þeirra mjög ánægð með stuðningsfjölskyldur sínar og sömu sögu er að segja af stuðningsfjölskyldum sem fannst aðstoðin vera mjög gefandi og fróðleg.

Vilt þú aðstoða flóttafólk að aðlagast?
Flóttafólkinu hefur verið boðið að setjast að í Reykjavík. Reykjavíkurdeild Rauða krossins leitar að áhugasömum sjálfboðaliðum til að taka þátt í undirbúningi á komu flóttafólksins til Reykjavíkur í ágúst. Reynslan hefur sýnt að um mjög gefandi sjálfboðaliðastarf er að ræða, bæði fyrir bæði flóttamenn og stuðningsaðila. Upplýsingar og skráning sjálfboðaliða er á skrifstofu Reykjavíkurdeildar Rauða krossins í síma 545 0400.

Atli Viðar er verkefnisstjóri Rauða kross Íslands.