Fólkið var mjög fljótt að aðlagast aðstæðum á Íslandi

Ingibjörgu Eggertsdóttur

13. okt. 2004

Haldið var kaffisamsæti í tilefni þess að 25 ár eru liðin síðan flóttamenn frá Víetnam komu til Íslands.
Nú eru 25 ár síðan Rauði kross Íslands, í samvinnu við stjórnvöld, tóku á móti fyrsta hópi flóttamanna frá Víetnam. Í því tilefni bauð Rauði krossinn til samkomu hópsins og mættu þar þrjátíu manns.

Það var þann 20. september 1979 þegar til landsins komu alls 35 manns frá Malaziu en þar hafði 8500 flóttamönnum frá Víetnam verið komið fyrir í flóttamannabúðum. Í hópnum voru fjórir einstaklingar, systkinahópur og fjórar barnmargar fjölskyldur.

Leitað var eftir sjálfboðaliðum meðal félagsmanna í Rauða krossinum og buðust 60 fjölskyldur til að veita Víetnömunum persónulegan stuðning eftir heimkomuna. Enn eru tvær konur úr þeim hópi virkir stuðningsmenn flóttamanna sem komið hafa síðan. Þær eru Guðlaug Hallbjörnsdóttir og Svanfríður Jónasdóttir. Þær bjuggu í sama stigagangi og gera enn en Guðlaug tók eina fjölskyldu inn á sitt heimili og þær Svanfríður gættu barnanna ef á þurfti að halda. Enn hýsir Guðlaug víetnamska fjölskyldu því síðastliðin 2 ár hefur hún hlaupið undir bagga meðan fjölskyldan safnaði sér fyrir íbúð sem nú er orðið að veruleika og þau eru að flytja á sitt heimili í Kópavoginum.

?Fólkið var mjög fljótt að aðlagast aðstæðum á Íslandi? segir Guðlaug. ?Stuðningur okkar fólst aðallega í að koma upp gardínum og vera til staðar. Söknuðurinn var mestur eftir hrísgrjónapottum en við reyndum að útvega stóra potta. Okkur fannst skrítið að sjá fólkið setja hnúta á gardínurnar en það er siður í Víetnam.?

Fljótlega fóru flóttamennirnir í íslenskunám í Námsflokkum Reykjavíkur og síðan út á vinnumarkaðinn en þeir voru mjög vel liðnir í vinnu. Mörg austurlensk veitingahús í Reykjavík eru rekin af víetnömskum flóttamönnum.

Þarna voru að koma í fyrsta sinn flóttamenn frá öðrum menningarheimi. Heyrst hafði í fréttum um afdrif bátafólks sem lenti í höndum ræningja og nauðgara. Innan Rauða krossins voru áhyggjur af því að fólkinu yrði mætt með andúð. Sá ótti reyndist sem betur fer að mestu ástæðulaus.

Björn Friðfinnsson stjórnarmaður Rauða kross Íslands og Björn Þórleifsson starfsmaður Rauða krossins fóru utan og fylgdu fólkinu til landsins. Með í för var hópur flóttamanna sem var á leið til Danmerkur.