Heimsóknir til hælisleitenda

26. okt. 2006

Heimsóknir til hælisleitenda er nýtt verkefni innan heimsóknaþjónustu Rauða krossins en Hafnarfjarðardeild mun hafa umsjón með verkefninu.

Rauði kross Íslands hefur um árabil komið að málefnum hælisleitenda á Íslandi og sá um umönnun þeirra frá árinu 1999 til 2003 þegar Útlendingastofnun gerði samning við Reykjanesbæ. Samningurinn felur í sér að veita hælisleitendum húsnæði, fæði og ýmsa aðstoð. Hlutverk Rauða krossins í málefnum þessa hóps snýr að málsvarahlutverki og réttindagæslu með það að markmiði að tryggja að hælisleitendur sem hingað koma fái réttláta málsmeðferð.

Hælisleitendur búa á gistiheimili í Njarðvík á meðan á málsmeðferð stendur. Reykjanesbær býður þeim uppá ýmiskonar afþreyingu eins og frían aðgang að listasöfnum, bókasafni og sundlaugum. Þrátt fyrir ágætis aðbúnað er talin þörf á því að auka félagsleg samskipti hælisleitenda á meðan á dvöl þeirra í Njarðvík stendur. Sjálfboðaliðahópur á vegum Rauða krossins mun því á næstunni hefja reglulegar heimsóknir til hælisleitenda einu sinni í viku.

Upphaflega hugmyndin að heimsóknum til hælisleitenda kom frá Toshiki Toma og hópi áhugafólks um málefni hælisleitenda á Íslandi. Þar sem hugmyndir þeirra féllu einstaklega vel að þeirri heimsóknarþjónustu sem Rauði krossinn hefur starfrækt um áraraðir var ákveðið að verkefnið yrði unnið undir merkjum Rauða krossins. Toshiki mun leiða heimsóknavinahópinn til að byrja með og er gert ráð fyrir að heimsóknir hefjist í nóvember. Þetta nýja verkefni á sviði heimsóknaþjónustu fellur vel að grundvallarmarkmiðum Rauða krossins um mannúð, sjálfboðna þjónustu, óhlutdrægni og hlutleysi.