Kom til Íslands sem flóttamaður

Kristján Guðlaugsson

29. nóv. 2006

Árið 1997 kom Nebojsa Zastavnikovic ásamt fjölskyldu sinni til Ísafjarðar sem flóttamaður frá Serbíu. Þá vissi hann ekki hvað að höndum myndi bera. Nú rekur hann eigið byggingafyrirtæki og byggir sumarbústaði á Íslandi. Kristján Guðlaugsson hitti hann að máli.

Nebojsa var lögreglumaður áður en hann fluttist búferlum til Íslands. Meðan hann var í íslenskunámi á Ísafirði vann hann hjá Ágústi Gíslasyni trésmíðameistara og þá vaknaði áhugi hans á húsamíðum og trésmíði.

Lærði trésmíðar
„Ágúst reyndist mér mjög vel og hann hvatti mig óspart til þess að nema trésmíði og það varð úr að ég fór í nám og öðlaðist réttindi. Ég vann svo á Ísafirði þar til í fyrrasumar, en þá fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur og ég fór að vinna sem trésmiður við húsbyggingar í Norðlingaholti," segir Nebojsa.

Fjölskyldan fór tíðum til fyrrverandi heimalandsins að heimsækja ættingja og vini og á þeim ferðum hitti Nebojsa kunningja sína sem störfuðu við húsbyggingar.

„Þeir voru í sambandi við þýskt húsbyggingafyrirtæki, sem heitir Lehner Haus, og byggðu hús í Belgrað og annars staðar í Serbíu. Ég hafði mikinn áhuga á þessu og ég skoðaði efni og frágang í hvert skipti sem ég kom til Belgrað. Þeir stungu svo upp á því við mig að ég stofnaði byggingafyrirtæki á Íslandi og ég fór að huga að þessum málum af alvöru þegar ég kom til Reykjavíkur."

Græn Hús
Lehner Haus sagar niður efni eftir teikningum og smíðar einingar í Þýskalandi, en þaðan flytur fyrirtækið einingarnar tilbúnar út, meðal annars til Serbíu.

„Ég komst í samband við Lehner Haus og stofnaði fyrirtækið Græn Hús ehf. Eftir mikla pappírsvinnu komu svo fyrstu einingarnar með skipi til Íslands í vor. Þá var ég búinn að finna húsbyggjendur og lóðir í landi Indriðastaða í Skorradal og allt var tilbúið til þess að hefja starfsemina," segir Nebojsa.

Hann fékk Hallvarð Aspelund arkitekt á Ísafirði til þess að teikna hús sem hentaði íslenskum aðstæðum og væri samkvæmt íslenskum stöðlum og lögum um byggingar.

„Þetta eru sterkbyggð hús og einingarnar eru þannig gerðar að ekki tekur nema vikutíma að gera þau fokheld. Svona einingahús standa fullbyggð og fullfrágengin eftir 15 daga. Í sumar byggðum við fjögur hús í Skorradalnum og ég hef á prjónunum fleiri byggingar næsta vor, bæði í Skorradal og í Grímsnesi, en samningar við sumarbústaðabyggjendur standa yfir um þessar mundir," segir Nebojsa.

Mikill áhugi
Nebojsa segir að mikil eftirspurn sé eftir sumarbústöðum og að markaðurinn sé góður fyrir einingahús.
„Ég fékk ellefu serbneska trésmiði til þess að reisa húsin í sumar, en líklega mun ég ráða íslenska trésmiði til næstu framkvæmda. Landsmönnum mínum fannst víst bæði kalt og vindasamt þarna í Skorradalnum, enda var sumarið ekki eins og best verður á kosið," segir Nebojsa.

Fyrstu húseiningarnar sem komu frá Þýskalandi voru án glugga, en Nebojsa óttaðist að rúðurnar kynnu að brotna við flutninginn.

„Eftir reynsluna frá því í sumar sé ég að betur hefði hentað að láta Lehner Haus setja gluggana í þar ytra vegna þess hve mikil rigning er hér á sumrin og þá hætta á að timbrið blotni meðan verið er að vinna við að reisa húsin. En svona er það, maður lærir smám saman bæði af mistökunum og eins hinu sem rétt er gert. Þetta kemur allt með hægðinni."