50 ár liðin frá komu ungverskra flóttamanna til Íslands

24. des. 2006

Á aðfangadag eru liðin 50 ár frá því að ríkisstjórn Íslands veitti fyrst flóttamönnum hæli á Íslandi í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Rauða kross Íslands. Um var að ræða flóttamenn frá Ungverjalandi sem höfðu flúið til Austurríkis undan innrás Sovétmanna sem vildu bæla niður uppreisn í landinu.

Alls flúðu um 200.000 manns Ungverjaland á örfáum vikum undir lok árs 1956 og leituðu langflestir þeirra, eða um 180.000, skjóls í Austurríki en aðrir í þáverandi Júgóslavíu. Stjórnvöld í Austurríki, Flóttamannastofnun og Alþjóðasamband Rauða krossins unnu í sameiningu að veita flóttafólkinu skjól, vernd og aðstoð. Óskað var eftir því að ríki heims aðstoðuðu við að veita flóttafólkinu vernd og áður en langt um leið hafði um 180.000 flóttamönnum verið boðið hæli í öðrum ríkjum. Þar á meðal var Ísland sem bauð 52 flóttamönnum hæli hérlendis.

Ísland hafði verið aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna í tæpa tíu mánuði þegar að flóttafólkið frá Ungverjalandi kom hingað til lands en tilgangur samningsins er að gefa þeim einstaklingum sem ekki njóta verndar gegn ofsóknum í eigin landi kost á því að leita sér og njóta verndar annarra ríkja.

Aftur var flóttafólki veitt skjól á Íslandi árið 1959 þegar að hópi Júgóslava var boðið hingað til lands. Frá 1979 til 1991 var 94 Víetnömum veitt hæli á Íslandi og 32 Pólverjum. Árið 1995 var Flóttamannaráð Íslands stofnað og árið eftir var flóttamönnum frá fyrrum Júgóslavíu veitt hæli á Íslandi og buðu stjórnvöld flóttamönnum vernd á ári hverju næstu fimm ár á eftir eða allt til 2001.

Árið 2003 settust flóttamenn að á Akureyri og árið 2005 bauð Reykjavíkurborg flóttamönnum frá Kosovo og Kólumbíu að setjast að í borginni. Flóttamennirnir frá Kólumbíu voru konur og börn sem Flóttamannastofnun taldi að væru í sérstakri neyð. Ekki var tekið á móti flóttafólki árið 2006.

Flóttamenn í heiminum skipta milljónum og oftast eru það konur og börn sem eru hvað berskjölduðust og þurfa yfirleitt að yfirstíga mikla erfiðleika í leit að vernd. Árið 2005 veittu sextán ríki tæplega 86.000 flóttamönnum vernd á þennan hátt. Alls hafa íslensk stjórnvöld boðið 531 flóttamanni vernd hér á landi í samvinnu við Flóttamannastofnun, Rauða kross Íslands og sveitarfélög í landinu.