Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fagnar stuðningi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna

2. jan. 2007

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) lýsir yfir ánægju sinni og þakklæti í garð ríkisstjórna og almennings á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum vegna stuðnings við störf Flóttamannastofnunar í þágu flóttamanna í heiminum.

„Við erum mjög þakklát fyrir langvarandi pólitískan stuðning frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum,“ segir António Guterres yfirmaður Flóttamannastofnunar.

Flóttamannastofnunin aðstoðar nú um 20 milljónir flóttamanna og aðra sem hafa neyðst til að flýja heimili sín. Fjárhagsáætlun stofnunarinnar hljóðar upp á einn milljarð Bandaríkjadala og þar af kemur fimmtungur frá Norðurlöndum.

Framlög Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna til Flóttamannastofnunar:
· Danmörk 50.6 milljónir Bandaríkjadala
· Eistland 128,000 Bandaríkjadala
· Finnland 20.2 milljónir Bandaríkjadala
· Ísland 100.000 Bandaríkjadala
· Lettland 13.000 Bandaríkjadala
· Noregur 55 milljónir Bandaríkjadala
· Svíþjóð 68 milljónir Bandaríkjadala

Fjárhagsáætlun Flóttamannastofnunar jafngildir því að hægt sé að veita hverjum og einum þeirra 20 milljóna sem þarfnast aðstoðar einn dollara á viku, bendir Guterres á.

Þrátt fyrir takmörkuð fjárráð hefur Flóttamannastofnun á undanförnum 18 mánuðum aðstoðað meira en eina milljón flóttamanna við að snúa til síns heima. Flóttamannastofnun vinnur með öðrum hjálparsamtökum að því að aðstoða þær þúsundir manna sem hafa nú flúið átökin í Írak og Sómalíu og til að takast á við versnandi ástand í Mið-Afríku þar sem átökin í Darfúrhéraði breiðast út til Tsjad og Mið-Afríku lýðveldisins.

Flóttamannastofnun vinnur að því að bæta skipulag sitt þegar kemur að neyðaraðstoð.

„Innan stofnunarinnar vinnum við að því að draga úr kostnaði í því skyni að veita nauðstöddum enn frekari aðstoð,“ segir Guterres. „En samhliða því að fólki sem stofnunin aðstoðar fjölgar og aðstoð við það verður markvissari af hálfu Flóttamannastofnunar þá þörfnumst við frekari stuðnings frá fleiri ríkjum.“

„Ef við lítum til næsta árs er ljóst að Flóttamannastofnunar bíður mikið og vandasamt verk. Þess vegna er mikilvægt að Flóttamannastofnun eigi sér samstarfsaðila sem bæði geta og vilja styðja okkur í að aðstoða flóttamenn,“ bendir Guterres á.

Rauði kross Íslands er fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.