Ungversku jólabörnin á Íslandi

Freystein Jóhannsson - Morgunblaðinu

4. jan. 2007

Aðfaranótt aðfangadags 1956 komu 52 ungverskir flóttamenn til Íslands. Tæpur helmingur þeirra varð íslenzkir ríkisborgarar og enn lifa 14 þeirra hér á landi. Freysteinn Jóhannsson rifjar upp komu þessa fyrsta flóttamannahóps til Íslands.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 24. desember 2006.

Upphafsmaðurinn að komu flóttamanna til Íslands á þessum tíma var Gunnlaugur Þórðarson, þá formaður framkvæmdaráðs Rauða kross Íslands, í útvarpserindi „um daginn og veginn", þar sem hann sagði m.a. fjölda flóttafólks vilja gefa aleigu sína fyrir öruggan samastað og fámenn þjóð eins og Íslendingar þyrfti á fleiri höndum að halda til þess að nytja land sitt sem bezt. „Gætum við Íslendingar, sem viljum gjarna teljast allra þjóða hjálpfúsastir, ekki rétt litlum hópi þessa fólks hjálparhönd? Við gætum valið úr hópi dugmikilla manna og kvenna..."

50–60 flóttamenn – helzt börn
Þegar Gunnlaugur talaði um daginn og veginn bjuggu hundruð þúsunda íbúa á meginlandi Evrópu enn í flóttamannabúðum, rúmum áratug eftir lok heimsstyrjaldarinnar. Röskum þremur mánuðum síðar bættust landflótta Ungverjar í hópinn eftir innrás Sovétríkjanna í föðurland þeirra. Þá var Gunnlaugur kominn í stjórn Rauða krossins og Ragnheiður Jónsdóttir, skrifstofustúlka RKÍ, benti honum á að nú ætti hann leik á borði að hrinda í framkvæmd gegnum Rauða krossinn hugmyndinni um að fá flóttafólk til landsins. „Mér þótti þetta frábær ábending og fylgdi henni eftir," segir Gunnlaugur í ævibrotum sínum. Hann rekur, að í september hafi verið fjallað um flóttamannavandamál á fundi framkvæmdaráðs RKÍ án þess þó að ályktun væri gerð og á fundi framkvæmdaráðsins eftir uppreisnina í Ungverjalandi kom ungverska flóttafólkið á dagskrá, en talið var rétt að bíða átekta. Á fundi 3. desember var samþykkt að bjóða milligöngu og fyrirgreiðslu RKÍ, ef til þess kæmi, að flóttafólk yrði fengið til landsins, og gekk Gunnlaugur þá á fund Hermanns Jónassonar forsætisráðherra, sem tók málaleitan hans vel, og viku síðar bauðst ríkisstjórnin til að veita viðtöku 50–60 ungverskum flóttamönnum og þáði formlega milligönguboð RKÍ. Lögð var áherzla á að fá börn til landsins og um miðjan desember höfðu 111 heimili boðizt til að taka 113 börn í fóstur.

Fararstjórinn með spilastokkinn
Til þess að hafa umsjón með komu flóttafólksins valdist Gunnlaugur Þórðarson og hélt hann utan áleiðis til Vínar 15. desember. Slæm flugskilyrði settu strik í reikninginn, flugvél sú sem Gunnlaugur fór með frá London varð að lenda í París og á endanum komst hún ekki til Vínar, heldur lenti í München og Gunnlaugur hélt áfram til Austurrríkis með lest.

Gunnlaugur segir komuna til aðalbækistöðva flóttamannastofnunarinnar í Vín aldrei muni hverfa sér úr minni. „Fyrir utan húsið stóð mannþyrping, hundruð ungverskra manna, kvenna og barna, sem farið höfðu yfir landamærin í þokunni um nóttina. Þetta fólk beið þess að verða skrásett og flutt í flóttamannabúðir."

Af Íslands hálfu hafði verið lögð áherzla á að fá munaðarlaus börn til fósturs og líka stúlkur, en það reyndist Gunnlaugi ógerlegt, þar sem Belgíumenn og Portúgalar höfðu þegar boðizt til þess að taka við börnum og fjöldi annarra ríkja hafði opnað landamæri sín fyrir stúlkum, m.a. Nýja-Sjáland sem bauðst til að taka við þúsund flóttamönnum, en einungis konum. Þar við bættist, að Alþjóðasamband Rauðakrossfélaga tók ábyrgð á velferð barna og lagði höfuðáherzlu á að hafa uppi á fjölskyldum þeirra og því kom ekki til greina að flytja börn til fósturs í fjarlægum löndum fyrr en fullreynt væri að nánir ættingjar væru ekki á lífi. „Er þetta brást lá beinast við að fá til Íslands fjölskyldur með börn ef þær væru reiðubúnar til fararinnar," segir Gunnlaugur.

Hann heimsótti svo þrennar flóttamannabúðir og á endanum hafði hann skrásett 23 karla og 34 konur til Íslandsferðar. Þá kom það babb í bátinn, að Alþjóðaflóttamannastofnunin tók úr hópnum níu 14 og 15 ára stúlkur, þar sem ekki var búið að fullreyna, hvort þær ættu skyldmenni í einhverjum öðrum flóttamannabúðum. Valdi stofnunin fimm menn í hópinn í þeirra stað og varð Gunnlaugur að fallast á það nauðugur viljugur. Að morgni 22. desember var Gunnlaugur mættur á flugvöllinn með 53 flóttamenn, en þegar Gullfaxi var kominn út á flugbraut kom upp bilun í nefhjóli, sem tafði brottförina fram á Þorláksmessukvöld. Gunnlaugi tókst að útvega fólkinu gistingu í bráðabirgðaskýli á flugvellinum því hann gat ekki hugsað sér að snúa hópnum aftur í flóttamannabúðirnar. Segir hann að fólkið hafi sýnt hina mestu biðlund og aðeins ein flóttakona gafst upp á biðinni.

Þegar svo allt var klárt til Íslandsferðar fékk Gunnlaugur hverjum flóttamanni, en þeir voru þá 52, eitt spil. Þegar þeir stigu um borð afhentu þeir spilin til baka og hafði Gunnlaugur þannig stjórn á því að bæði færi rétt fólk og rétt höfðatala í flugvélina.

Högni Torfason, fréttamaður ríkisútvarpsins, kom til Vínar. Hann lýsir brottferðinni þaðan: „Það er mjög hljótt yfir hópnum áður en flugvélin leggur af stað. Flest af þessu fólki hefir aldrei komið upp í flugvél áður og kann að hafa beyg af þessu farartæki. Það spennir á sig öryggisbeltin og flugvélin rennur af stað og hefur sig til flugs. Venjan er sú, að fólk á að hafa öryggisbeltin spennt góða stund eftir flugtak, en forvitnin nær yfirhöndinni og það teygir sig upp úr sætunum og horfir út um gluggana á hina endalausu ljósafléttu stórborgarinnar fyrir neðan. Svo er hækkað flugið og ekki sézt lengur til jarðar."

Bezta jólagjöfin
Ferðin til Íslands með millilendingu í Prestvík gekk að óskum og þegar aðfaranótt aðfangadagsins var skollin á lentu þreyttir en ánægðir flóttamenn á Íslandi.

Gunnlaugur Þórðarson segir: „Ég var hreykinn innra með mér, er flugvélin sveif inn yfir landið. Það var aðfangadagsmorgunn, og ég þóttist viss um, að aldrei fyrr hefði íslenska þjóðin fengið aðra eins jólagjöf. Draumur minn hafði ræst." Og Gunnlaugi hlýnaði um hjartarætur, „þegar ég sá einvalalið Rauða krossins standa albúið til að taka á móti flóttafólkinu".

Í Melaskóla gekkst fólkið undir læknisskoðun og fékk tækifæri til að fara í bað og ný föt, en síðan var farið í Hlégarð í Mosfellssveit, þar sem fólkið hélt jólin í sóttkví og fram á nýársdag. Margir urðu til þess að létta flóttafólkinu dvölina í Hlégarði og þá sérstaklega um jólin og segir Morgunblaðið, að ýmis samtök og fyrirtæki hafi gengizt fyrir fatagjöfum og jólagjöfum og Skógræktin gefið jólatré. Kaþólskur prestur söng messu, en flestir flóttamennirnir voru kaþólskir.

Mig langar að fá telpuna mína til Íslands
Blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins fengu að heimsækja flóttafólkið í Hlégarði 28. desember. Fyrirsögn frásagnarinnar í blaðinu daginn eftir er: Mig langar til að fá telpuna mína til Íslands – segir 19 ára flóttakona og veit ekki, hvort maður hennar er lífs eða liðinn. Í greininni kemur fram, að fimmtán mánaða stúlkubarn þeirra er þá enn í Búdapest hjá afa og ömmu, sem vita ekki, hvar dóttir þeirra er niðurkomin. Hún vann við að koma dreifimiðum og blöðum frelsissveitanna út á land, var handtekin, en sleppt eftir fjóra daga, en síðan handtekin aftur og notaði þá tækifærið, þegar hún fékk að sækja kápuna sína, til að flýja.

Einn flóttamannanna er einhentur og segir það hafa bjargað lífi sínu. Hann er 21 árs skrifstofumaður frá Búdapest, þar sem hann barðist með löndum sínum fyrir framan útvarpið í byrjun byltingarinnar. Á heimleiðinni lenti hann í sprengjukasti og missti þá hægri hönd og vinstra auga. Félagar hans komu honum í sjúkrahús, þar sem ungverskir læknar og hjúkrunarkonur sinntu honum.

– En Rússarnir, veittu þeir enga læknisaðstoð? spyr blaðamaður Morgunblaðsins.

Hann brosir fyrirlitlega:

– Rússarnir? Þeir skutu bara á lækna, hjúkrunarkonur og sjúkrahús. Þegar Rússarnir voru farnir að ganga á sjúkrahúsin og varpa sjúklingunum í fangelsi fór flóttamaðurinn heim. „21. nóv. munaði litlu, að ég yrði fluttur nauðugur til Rússlands. Ég var á gangi úti, þegar rússneskir skriðdrekar komu skyndilega og sópuðu fólkinu saman. Síðan var það bundið og keflað, svo að það gat ekkert hljóð gefið frá sér og loks fleygt inn í flutningavagna. Þarna réðust þeir á mig og ætluðu að binda hendur fyrir aftan bak, en fundu þá að mig vantaði hægri höndina. Þá köstuðu þeir mér í burtu aftur. Ef ég hefði haft hægri höndina væri ég ekki hér."

Í frásögn blaðamanns Morgunblaðsins segir m.a.: „Þegar við lítum inn í aðalsalinn er hann þéttskipaður fólki á öllum aldri. Yngsti flóttamaðurinn er þriggja ára gamall, en hann er ekki viðstaddur, er sennilega farinn að sofa. Það er komið að kvöldi. Elzti flóttamaðurinn er 54 ára gömul kona. Hún er ekki heldur í salnum, því að hún er lasin eftir hrakningana og liggur fyrir. – Það er verið að leika dansmúsík, og eitt parið hefur fengið sér snúning á miðju gólfi. Sumir tefla, aðrir spila á spil, og ein eða tvær konur prjóna án afláts. Hér er séð fyrir öllu og reynt að afmá sárustu minningarnar. En það er ekki auðgert. Rússnesk ráðstjórn segir til sín með köflum. Ung stúlka grætur með þungum ekka. Frú Nanna (Snæland túlkur, var gift Andrési Alexandersyni af ungversku bergi brotinn, en þau hjón höfðu flúið til Íslands frá Búdapest 1948 – innskot) gengur til hennar og hughreystir hana. Og svo er okkur sagt að þetta fólk hafi flúið af "ævintýraþrá"!"

En í samtölum við flóttafólkið kemur fram, að það var engin ævintýraþrá sem rak það í skemmtiferð til Íslands. Lýsingar þess á grimmd rauða hersins og ráðstjórnarfyrirkomulagsins eru skelfilegar og hrikalegar þær hörmungar sem hröktu fólkið á flótta heiman að.

Engin nöfn eru birt í greininni og á meðfylgjandi ljósmyndum eru augu fólksins hulin utan yngstu flóttamannanna sem myndaðir eru á koddanum. Þessi leynd átti m.a. að koma í veg fyrir að útsendarar ráðstjórnarvaldsins vissu hverjir flóttamennirnir væru en sú vitneskja átti að gefa höggstað á flóttamönnunum og ættingjum þeirra heima fyrir.

Einn flóttamannanna segir berum orðum, þegar hann er spurður um ástæðu þess að hann fór úr landi: Ef þér skrifið ekki nafn mitt í blaðið get ég sagt yður það. Ég tók þátt í uppreisninni og barðist með frelsissveitunum í verkamannahverfum Búdapest. Þar urðu bardagar einna harðastir.

– Þér hafið sem sagt ekki flúið af "ævintýraþrá"?

Hann brosir, segir svo:

– Við erum komnir yfir alla „ævintýraþrá"! Þegar ég frétti um örlög móður minnar (sem Rússar myrtu meðan hann sat í fangabúðum nazista og föður hans settu þeir í fangelsi fyrir stjórnmálaskoðanir) var ég ákveðinn í að klekkja á Rússum eins og ég frekast gæti. Ég fékk tækifæri til þess – og þess vegna er ég kominn hingað.

Á baksíðu Morgunblaðsins er fólk hvatt til þess að leggja ungversku flóttamönnunum lið með fjárframlögum, atvinnu og húsaskjóli; „Leggjum öll hönd að verki". Blaðið birtir lista um störf Ungverjanna „til að íslenzkir vinnuveitendur geti betur áttað sig á því að hvaða störfum það fær helzt gengið".

Karlmenn:
Bifvélavirkjar (3), múrari (1), námumaður (1), járnsmiðir (2), logsuðumaður (1), bílaréttingamaður (1), búfræðingur (1), gúmmíverkamaður (1), húsgagnasmiður (1), skósmiður (1), verksmiðjuverkamenn (2), bifreiðastjóri (1), loftskeytamaður (1), vélsmiðir (3), rafvirki (1), vélfræðingur (1).

Konur:
Hjúkrunarkonur (4), saumakonur (2), Rannsóknastofustarf (1), skrifstofustúlka (1), matreiðslukona (1), verksmiðjustúlkur (3).

Gunnlaugur Þórðarson segir, að svo vel hafi tekizt til að um áramót var búið að útvega öllu fólkinu atvinnu og finna því flestu samastað. Sex fóru til Vestmannaeyja, tveir til Akraness, tveir til Hafnarfjarðar, að Álafossi og nágrenni fóru sex, fjórir að Geldingalæk í Rangárvallasýslu (hjón með tvö börn) og í Reykjavík ílentust 30.

Hvíti þrælasalinn
Gunnlaugur segir að það hafi verið mikil uppörvun að finna þann velvilja, sem fólkið mætti í hvívetna og hann líka fyrir forgöngu sína í máli þess. Hins vegar var annað hljóð í strokki Þjóðviljans, sem helgaði Gunnlaugi leiðara sinn 28. desember undir fyrirsögninni: "Kynferði mannúðarinnar". Gunnlaugur hafði í útvarpsviðtali á jólum sagt frá Austurríkisferðinni og sagði Þjóðviljinn hann hafa talað "eins og fyrirmaður nýkominn af þrælamarkaði, þar sem hann hafði þuklað, mælt og vegið þá sem á boðstólum voru". Mannúð hans var bundin við aldur og kyn, en ekki þá sem erfiðast áttu. Í blaðinu Austurlandi var Gunnlaugur kallaður "samviskulaus þrælakaupmaður".

Í Ævibrotum segir Gunnlaugur: "Mér þótti líklegt að konur ættu öðru jöfnu auðveldara með að samlagast nýjum aðstæðum en karlar og tók þær því fram yfir karla. Reynt var að koma á mig höggi á þeim forsendum, og eins því að vilja fá börn til landsins. Það duldist samt engum, að hingaðkoma flóttafólks frá kommúnistísku ríki var hin eina ástæða þeirrar óvildar sem Þjóðviljinn gat ekki leynt."

Tæpum aldarfjórðungi eftir þrælakaupmannsnafnbótina birtist í Þjóðviljanum helgarviðtal við Gunnlaug Þórðarson, þar sem hann kemur m.a. inn á mál ungversku flóttamannanna. Þá horfir aðdragandinn svona við honum: "Ég lék tveimur skjöldum í þessu máli, því félögunum í RKÍ leist í rauninni ekkert á hugmyndina um flóttafólk til Íslands. Ég sagði ríkisstjórninni að RKÍ hefði hug á að fá fólkið til landsins og sagði síðan félögunum í RKÍ að ríkisstjórnin vildi fá flóttamennina. Ég taldi ráðlegast að fá stúlkur hingað til lands vegna þess að kvenfólk á auðveldara með að aðlaga sig en karlmenn." Og Ingólfur Margeirsson sló botninn í þetta mál fyrir Þjóðviljann: "Fyrir þessa afstöðu var Gunnlaugur kallaður "hvíti þrælasalinn" í Þjóðviljanum 1956."

Nixon á Íslandi
Undanfari ungversku flóttamannanna á Íslandi var bandaríski varaforsetinn, Richard Nixon, sem kom hér við á heimleið frá Austurríki, þar sem hann kynnti sér aðbúnað ungverska flóttafólksins og úrræði því til handa. Nixon hitti íslenzka ráðamenn á Bessastöðum og ræddi við blaðamenn.

Nixon varði afskiptaleysi Bandaríkjanna og hins vestræna heims með því að þótt menn fylgdu ungversku frelsishetjunum í hjarta sínu hefði verið ógerlegt að hætta heimsfriðnum með því að skerast beint í leikinn. Því yrðu menn að vinna í gegnum samtök Sameinuðu þjóðanna.

"Ekkert land sem tekur við ungversku flóttafólki verður fyrir vonbrigðum," hefur Morgunblaðið eftir varaforsetanum. "Því að þetta fólk er þegar á heildina er litið duglegt og iðjusamt. Margt af því er einnig ungt að aldri og býr yfir óþrjótandi starfsorku."

Helmingur fékk ríkisborgararétt
Í íslenzkunni átti ungverska flóttafólkið að vonum örðugastan hjallann, en engin skipulögð íslenzkukennsla stóð þeim til boða. Mæddi því mikið á Andrési Alexanderssyni og Nönnu Snæhólm konu hans í þeim efnum. Í Morgunblaðinu stóð, að aðeins tveir flóttamannanna töluðu dálítið í þýzku.

Í skýrslu um ungverska flóttafólkið á Íslandi sem gefin var út 21. október 1958 segir að því hafi vegnað vel og átt tiltölulega auðvelt með að koma sér fyrir hér. Af 52 flóttamönnum lézt kona hálfu ári eftir komuna og sex sneru aftur heim til Ungverjalands og fjórir karlar fóru annað. Tuttugu og fimm óskuðu eftir íslenzkum ríkisborgararétti og fengu hann á árunum 1962–64. Árið 1994 bjuggu sautján þeirra enn á Íslandi, tveir voru fluttir aftur til Ungverjalands, einn til Bandaríkjanna, tveir voru látnir og óvíst var um þrjá einstaklinga.

Nú lifa hér á landi 14 Íslendingar úr ungverska flóttamannahópnum, sem kom 1956.

Gunnlaugur Þórðarson: Ævibrot. Setberg 1990.
Gunnlaugur Þórðarson: Flóttafólk til Íslands. Heilbrigt líf.
Gunnlaugur Þórðarson/Ingólfur Margeirsson: Helgarviðtalið. Þjóðviljinn 29. apríl 1979.
Margrét Guðmundsdóttir: Í þágu mannúðar. Saga Rauða kross Íslands. Mál og mynd 2000.
Hólmfríður Erla Finnsdóttir: Flóttamenn á Íslandi. BA-ritgerð í sagnfræði.
Kristín Erla Harðardóttir, Heiður Hrund Jónsdóttir, Friðrik H. Jónsson/ Félagsvísindastofnun: Reynsla og viðhorf flóttamanna á Íslandi. Unnið fyrir Flóttamannaráð Íslands 2005.

Morgunblaðið.
[email protected]