Flóttamannastofnun SÞ: Írakar sem flýja land verði viðurkenndir sem flóttamenn

10. jan. 2007

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað beiðni sína til allra landa um að viðurkenna þá sem nú flýja frá Mið- og Suður-Írak sem flóttamenn samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951. Í þessum landshluta er bæði mikið um ofbeldi og mannréttindabrot.

„Það er gríðarlega mikið um ofbeldi í miðhluta Íraks og ástandið er afar óstöðugt í suðurhlutanum. Spenna milli trúarhópa jókst skyndilega eftir sprengjuárásirnar í Samarra í febrúar í fyrra, og það leiddi til þess að þúsundir Íraka voru drepnir og margir til viðbótar misstu heimili sín,” segir Paal Aarsaether, talsmaður svæðisskrifstofu Flóttamannastofnunar SÞ á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum.

Í svona stöðu gefur Flóttamannastofnun reglulega ráð til stjórnvalda varðandi mögulega endursendingu tiltekinna hópa og afstöðu sína um hvort snúa eigi fólki sem hefur flúið heimaland sitt til baka.

Flóttamannastofnun SÞ segir að frá því hún gerði þetta í september 2005 hafi ástandið í Írak versnað. Nú fari ofbeldi stöðugt vaxandi og skipulögð mannréttindabrot séu tíð. Þess vegna mælist Flóttamannastofnun til þess að litið verði á hælisleitendur frá Mið- og Suður-Írak sem flóttamenn samkvæmt flóttamannasáttmálanum frá 1951. Ef það verði ekki gert þurfi að tryggja þeim vernd sem jafngildi slíkri viðurkenningu.

„Enginn Íraki ætti að þurfa að snúa aftur til Mið- og Suðurhluta landsins fyrr en að dregið hefur úr ofbeldinu og mannréttindabrot eru á undanhaldi,” segir Aarsaether.

Flóttamannastofnun SÞ mælist einnig gegn því að fólk sem ekki er frá kúrdísku héruðunum þremur í Norður-Írak snúi aftur þangað. Þess í stað verði óskir þessa fólks um hæli teknar fyrir í samræmi við flóttamannasáttmálann.

Flóttamannastofnunin hefur óskað eftir 60 milljóna dollara fjárveitingu (4,2 milljarðar íslenskra króna) vegna ástandsins í Írak á árinu 2007. Á að nýta það fé til að aðstoða þau hundruð þúsunda Íraka sem misst hafa heimili sín.

Þessi beiðni nær bæði til Íraks sjálfs og fimm annarra landa í nágreninu – Sýrlands, Jórdaníu, Líbanon, Egyptalands og Tyrklands – en þau hafa fengið flesta flóttamenn frá Írak til sín. Sumir flýja þó enn lengra – meðal annars til Evrópu.

Á fyrstu sex mánuðum 2006 leitaði fólk frá um 40 þjóðum hælis í löndum Evrópu. Flestir þeirra, 8.100, komu frá Írak. Tölurnar sýna að umsækjendum frá Írak fjölgaði um 50% frá sama tímabili árið 2005.