Nýtt verkefni með hælisleitendum gengur vel

19. jan. 2007

Hópur sjálfboðaliða í Hafnarfjarðardeild Rauða krossins hefur frá því í nóvember heimsótt hælisleitendur sem dvelja í Njarðvík á vegum Félagsþjónustunnar í Reykjanesbæ. Í hverri viku fara þrír til fjórir sjálfboðaliðar í heimsókn og dvelja hjá fólkinu í um eina og hálfa klukkustund í senn.

Markmið heimsóknanna er að rjúfa félagslega einangrun hælisleitenda og veita þeim stuðning á meðan þeir bíða málsmeðferðar. Upp hafa komið margar hugmyndir um hvernig aðstoða megi hópinn en við þær aðstæður sem hælisleitendur búa við er aðgerðaleysi einn helsti óvinurinn auk þess sem það getur valdið mikilli streitu að búa við óvissu um framtíð sína. Þessa dagana er verið að safna saman bókum á erlendum tungumálun, einkum rússnesku, arabísku, frönsku og ensku til að koma upp vísi að litlu heimilisbókasafni á dvalarstað hælisleitendanna.

Þann 29. desember héldu Hafnarfjarðardeild og sjálfboðaliðarnir hátíðarkvöldverð fyrir hælisleitendur í Sjálfboðamiðstöð Rauða krossins í Hafnarfirði. Boðið var uppá hangikjöt með uppstúf, baunum, rauðkáli, kartöflum og laufabrauði og kunni fólk vel að meta þennan hefðbundna íslenska hátíðarmat. Endaði kvöldið á því að hópurinn naut glæsilegrar flugeldasýningar sem Björgunarsveit Hafnarfjarðar stóð fyrir.

Allar nánari upplýsingar um heimsóknir til hælisleitenda má fá á skrifstofu Hafnarfjarðardeildar í síma 565-1222.