Flóttamannastofnun gerir samning við Rauða kross Írlands um sameiningu flóttamannafjölskylda

6. mar. 2007

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gert samning við Rauða kross Írlands um samstarf við að sameina flóttamannafjölskyldur á Írlandi.

„Í okkar huga er Rauði krossinn, með mannúðarmarkmið sín og leitarþjónustu, eðlilegur samstarfsaðili til að reyna að sameina sundraðar fjölskyldur,” segir Manuel Jorado, fulltrúi flóttamannastofnunar á Írlandi.

„Við vonumst til að írsk stjórnvöld muni ekki aðeins sýna göfuglyndi í heimildum sínum fyrir fjölskyldusameiningum heldur muni einnig leggja fram fjármagn til að aðstoða þær fjölskyldur sem hafa ekki efni á flugfari. Það heyrir nú undir starfsemi Flóttamannastofnunar.”

Á síðasta ári bárust 1350 beiðnir um fjölskyldusameiningar og af þeim fengu rúmlega 360 vegabréfsáritanir til að sameinast fjölskyldu sinni á Írlandi.

Flóttamannastofnun lagði til yfir 15.000 bandaríkjadali (eina milljón króna) til að aðstoða flóttamenn við að sameinast fjölskyldum sínum árið 2005.

Carmel Dunne framkvæmdastjóri Rauða kross Írlands segir einnig að þetta samstarf sé mikilvægt. Rauði krossinn gegni lykilhlutverki í írsku samfélagi en samsetning írsku þjóðarinnar sé sífellt að breytast og það samræmist markmiðum félagsins vel að sameina fjölskyldur.

Það hefur gengið hægt á síðustu árum að sameina flóttamannafjölskyldur á Írlandi vegna mikils fjölda hælisumsókna sem gerir það að verkum að álagið á stjórnkerfið er mikið. Þar sem þessum umsóknum fer nú fækkandi auk þess sem sérstök innflytjendastofnun hefur tekið til starfa á Írlandi hafa yfirvöld getað forgangsraðað upp á nýtt og flutt til starfsfólk til að flýta afgreiðslu slíkra mála.

Jordao segir að Írar hafi gert mikið til að búa til kerfi fyrir hælisleitendur sem er bæði hagkvæmt og verndar þá sem óska eftir hæli.