Ríkisstjórnin samþykkir að taka á móti flóttamönnum ár hvert

19. mar. 2007

Rauði kross Íslands fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að taka árlega á móti hópi flóttamanna hingað til lands. Ákvörðun um þetta var tekin á ríkisstjórnarfundi að tillögu utanríkisráðherra Valgerðar Sverrisdóttur í framhaldi af yfirlýsingu hennar og Magnúsar Stefánssonar félagsmálaráðherra frá 15. febrúar síðastliðnum um vilja til að renna styrkari stoðum undir reglulega móttöku flóttamanna hér á landi og samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR.

„Ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú er mikilvægt skref í að bæta fyrirkomulag Íslendinga við móttöku flóttamanna,” segir Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. „Við hjá Rauða krossinum teljum að ferlið verði skilvirkara nú þegar búið er að tryggja samfellu í móttöku flóttamanna. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar auðveldar einnig alla skipulagningu Flóttamannastofnunar SÞ sem árlega biður ríki heims um að veita tugum þúsunda flóttmanna öruggt skjól.”

Með ákvörðuninni hefur Ísland slegist í hóp annarra Norðurlandaþjóða um að taka á móti flóttamönnum á hverju ári. Íslensk stjórnvöld hafa tekið á móti 451 flóttamanni frá árinu 1956 í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Rauða kross Íslands og sveitarfélög í landinu, þar af 247 frá 1996. Rauði kross Íslands hefur lykilhlutverki að gegna við móttöku flóttamanna sem hafa komið í 20 – 30 manna hópum.

Árið 1995 var Flóttamannaráð Íslands stofnað. Frá 1996 til 2001 komu hingað árlega hópar flóttamanna en annað hvert ár síðan 2001. Síðast komu flóttamenn til Íslands í boði stjórnvalda haustið 2005 og var þá um að ræða sjö manna fjölskyldu frá Kosovo og 24 konur og börn frá Kólumbíu. Árið 2005 var Flóttamannaráð lagt niður en í stað þess stofnuð nefnd um flóttafólk en í henni sitja fulltrúar félagsmálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, utanríkisráðuneytis og Rauða kross Íslands.

Flóttafólki hefur gengið mjög vel að aðlagast á Íslandi og hafa vinnubrögð hérlendis við móttöku flóttafólks vakið eftirtekt Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Flóttamannastofnunin vill kanna hvort sú aðferðafræði sem unnið hefur verið eftir hér á landi verði nýtt sem fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir. Bæði eru það vinnubrögð stjórnvalda og sveitarfélaga en ekki síst starf sjálfboðaliða Rauða kross Íslands sem hafa verið flóttamönnum stoð og stytta við komuna til Íslands.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins eru stuðningsaðilar og er hlutverk þeirra að leiða flóttafólk inn í íslenskt samfélag með ýmsum hætti. Þeir sýna til dæmis flóttafólkinu sitt nánasta umhverfi, hvar er ódýrast að versla og hvar nauðsynlega þjónustu er að finna. Sjálfboðaliðarnir svara ýmsum spurningum flóttafólks um íslenska menningu, siði og venjur en kynnast um leið framandi og spennandi menningarheimum flóttafólksins. Sjálfboðaliðar Rauða krossins taka hlýlega á móti flóttafólkinu sem er mjög mikilvægur þáttur í aðlögun að nýju samfélagi.

Stefnt er að móttöku flóttamanna um mitt ár 2007 og að tekið verði á móti konum og börnum úr verkefni Flóttamannastofnunar sem kallast „konur í hættu“ eða „Women at risk“.

„Rauði krossinn fagnar sömuleiðis áherslum flóttamannanefndar og ríkisstjórnarinnar um að bjóða hingað flóttakonum og börnum en það er sá hópur sem er hvað oftast í mikilli áhættu og stendur berskjaldaður gegn ýmis konar erfiðleikum og hættum,” segir Kristján Sturluson.