Flestir hælisleitendur koma frá Írak

30. mar. 2007

Írakar sem flúið hafa frá stríðshrjáðu heimalandi sínu voru fjölmennastir í hópi hælisleitenda í iðnríkjum heimsins á síðasta ári, en ríkin eru 50 talsins. Þaðan komu 22.200 hælisleitendur og hefur þeim fjölgað um 77% frá árinu 2005 samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2002 sem Írakar eru fjölmennastir meðal hælisleitenda. Á sama tíma fækkar hælisleitendum af öðrum þjóðernum.

Talsmaður flóttamannahjálpar SÞ segir þessa miklu fjölgun Íraka vekja athygli þar sem umsóknum um hæli fer almennt fækkandi. Þessi fjöldi er þó ekki mikill miðað við þann fjölda Íraka sem hefur þurft að flýja heimili sín en heldur samt ennþá til í Miðausturlöndum. Talið er að 1,9 milljón manns sem þannig er ástatt fyrir sé enn í Írak og tvær milljónir í löndunum í kring, t.d. Sýrlandi og Jórdaníu.

Samkvæmt tölum SÞ sóttu um 300 þúsund manns um hæli sem flóttamenn í iðnríkjum heimsins á síðasta ári, 10% færri en árið 2005. Flestir sóttu um hæli í Bandaríkjunum en þeir höfðu verið í öðru sæti næstu tvö ár á undan. Frakkland fékk flestar umsóknir árið 2005 en þeim fækkaði um 39% í fyrra.

Um 51 þúsund manns sóttu um hæli í Bandaríkjunum sem er um 17% allra umsókna í iðnríkjum heimsins. Ef miðað er við höfðatölu fékk Bandaríkin þó aðeins eina umsókn fyrir hverja þúsund íbúa á meðan meðaltalið í Evrópusambandsríkjunum var 3,2 umsóknir.

Talið er að fækkun hælisleitenda skýrist að hluta til af því að ástandið í heimalöndum margra þeirra hafi batnað, en einnig af því að mörg lönd hafa sett strangari reglur heima fyrir sem fæli fólk frá því að sækja um. Flóttamannahjálpin hefur ítrekað lýst yfir áhyggjum af því að sú viðleitni margra ríkja að veita eins fáum hæli og mögulegt er geti orðið til þess að sumir flóttamenn fái ekki þá vernd sem þeir þurfi.

Hælisleitendurnir komu aðallega frá Írak (22.200), Kína (18.300), Rússlandi (15.700), Serbíu og Svartfjallalandi (15.600) og Tyrklandi (8.700). Í rússnesku tölunum eru einnig hælisleitendur frá Tsjetsjenínu. Fyrir utan Íraka fjölgaði hælisleitendum verulega frá Líbanon (66%), Erítreu (59%) og Bangladess (42%).

Írakar voru síðast efstir á þessum lista árið 2002, áður en Saddam Hussein var steypt af stóli. Þá komu yfir 50 þúsund umsóknir um hæli þaðan.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur boðað til ráðstefnu í Genf 17.-18. apríl til að ræða þann vanda sem steðjar að Írak. Þar verður fulltrúm stjórnvalda í öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna boðið, sem og 65 alþjóðlegum samtökum og 60 sjálfstæðum samtökum.

Á Íslandi fækkaði umsóknum um hæli úr 87 umsóknum árið 2005 í 39 umsóknir á árinu 2006. Það er um það bil 55% fækkun á milli ára. Þar af var einn einstaklingur frá Írak sem sótti um hæli á árinu 2006 en enginn á árinu 2005.

Á Íslandi sækja hlutfallslega mun færri um hæli en í Evrópusambandslöndunum eða um 0,13 umsókn á hverja 1000 íbúa árið 2006 samanborið við eina umsókn á hverja 1000 íbúa í Bandaríkjunum og 3,2 umsóknir á hverja 1000 íbúa í Evrópusambandsríkjunum.